Um mig ... sko Hvata!

hvatiblikkstendur Þetta er hann Hvati, íslenskur hvolpur sem gert hefur sér bæli á Æfingastöðinni.

Þegar Hvati kom í heiminn varð strax ljóst að hann yrði hvatur - sem sagt fjörurgur, vaskur og hugdjarfur og því kom ekkert annað nafn til greina á hvolpinn en Hvati. Svo er hann líka hundfrár, hundvís og fundvís. Hann er sprækur sem lækur og forvitinn fjörkálfur og sumir segja hann sér grallaraspói. Hvati er samt ósköp góður hvolpur og þó forvitnin komi honum stundum í vandræði kemst hann oftast klakklaust frá ósköpunum. Stundum er hann reyndar með skrámað hvolpanef og plástur - honum finnst það bara flott ... þó það sé kannski ekki sérlega gott!

Hvati er fundvís á skemmtilega leiki og æfingar og þó að gangi misvel veit hann að það borgar sig að gefast ekki upp - heldur gera sitt besta. Hann kann alls konar hundakúnstir - hann veltir sér, teygir sig, beygir og hneigir. Hvata þykir sérstaklega skemmtilegt í sundi og þó honum gangi hálfilla að læra flugsund er hann bara góður í hundasundi. ,,Beygja, rétta, busla - skvetta ..." heyrist í honum þegar hann ærslast í lauginni. Þegar hann loksins næst upp úr hristir hann sig svo duglega að það slettist upp á miðja veggi og svo harðneitar hann að nota handklæði! ´

Já, það er gaman að vera til - ,,lífið er h'undurrrrsamlegt!" eins og Hvati segir sjálfur.

 

Höfundur Hvata: Eva Þengilsdóttir
Teiknari: Kári Gunnarsson