Sjúkraþjálfun

Sjúkraþjálfarar búa yfir víðtækri þekkingu á stoðkerfi líkamans, hreyfingum og hreyfiþroska. Sjúkraþjálfarar aðstoða skjólstæðinga við að bæta, viðhalda og nýta líkamlega færni sína svo þeir eigi auðveldara með að sinna því sem þeir þurfa og vilja taka sér fyrir hendur í daglegu lífi, hreyfa sig og viðhalda góðri heilsu. Lögð er áhersla á náið samstarf við skjólstæðinga, fjölskyldur þeirra og aðra sem veita þeim þjónustu.

Þjónusta sjúkraþjálfara er mismunandi að umfangi og innihaldi eftir þörfum hverju sinni en takmarkið er ávallt að auka möguleika, virkni og þátttöku í leik og starfi. Þjónustan er fyrst og fremst veitt á Æfingastöðinni en einnig fer hún fram í nærumhverfi skjólstæðinga, svo sem á leikskólum og í skólum.

Sjúkraþjálfarar vinna með skjólstæðingum og fjölskyldum þeirra að eflingu og viðhaldi:

  • Líkamlegs ástands
  • Hreyfistjórnunar og samhæfingar
  • Líkamsvitundar og skynjunar
  • Hreyfiþroska og grófhreyfifærni

Sjúkraþjálfarar:

  • Veita upplýsingar og þjálfun í daglegri færni
  • Taka þátt í aðlögun umhverfis til að stuðla að aukinni þátttöku
  • Veita ráðleggingar um bættar líkamsstöður sem vinna gegn aflögunum, verkjum og leiða til aukinnar virkni og samskipta
  • Aðstoða við val og útvegun hjálpartækja og kenna notkun þeirra
  • Vinna að bættri líkamlegri líðan, verkjameðferð
  • Kenna vinnustellingar og lyftitækni