Reykjadalur

Við sköpum ævintýri

 

Gleði, jákvæðni og ævintýri lýsa vel starfseminni í Reykjadal. Þar rekur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sumar- og helgardvalarstað fyrir fötluð börn og ungmenni. 

Í Reykjadal er börnum og ungmennum sem þurfa sérstaka þjónustu vegna fötlunar gefið tækifæri til að njóta sumardvalar og skapa ógleymanlegar minningar. Árlega koma um 250 einstaklingar í Reykjadal á aldrinum 8-21 árs. Gott aðgengi og góður aðbúnaður einkennir húsnæði Reykjadals í Mosfellsdalnum og á hverju ári reynum við að bæta þjónustu okkar og aðstöðu. Styrkir, gjafir og fjárveitingar einstaklinga og fyrirtækja spila stórt hlutverk í allri uppbyggingu. 

 

Frá maílokum fram í miðjan ágúst er boðið upp á sumardvöl og yfir vetrarmánuðina er boðið upp á helgardvöl. Hvert barn getur dvalið í 6 -  13 daga yfir sumartímann og fengið síðan möguleikann á úthlutun á tveimur helgum yfir vetrartímann.

 

Gildi 


Í Reykjadal er hugmyndafluginu sleppt lausu og þar er haft að leiðarljósi að ekkert sé ómögulegt. Lögð er áhersla á það að allir sem þangað sækja fái að njóta sín á sínum eigin forsendum og skemmti sér í góðra vina hópi. 

 

 Starfsfólk

Starfsmenn Reykjadals eru langoftast ungir námsmenn á aldrinum 18 - 29 ára. Margir eru í námi á heilbrigðisvísindasviði í háskólum landsins en annars koma þau alls staðar að úr samfélaginu. Einungis er lögð áhersla á að starfsmenn hafi áhuga á starfinu, séu ábyrgðarfullir en jafnframt lífsglaðir og til í alla leik og gleði. 

Haldin eru fræðslunámskeið á hverju ári fyrir starfsmenn til að undirbúa þau fyrir sumarið. Þar er farið í rétta líkamsbeitingu við ýmis störf, fræðslu á flogaveiki, skyndihjálparnámskeið og jákvæð samskipti á vinnustað. 

Starfsmenn Reykjadals sjá alfarið um alla dagskrárgerð á sumrin og á veturna og hafa upp á sitt fordæmi haft samband við og fengið ýmsa leynigesti í heimsókn í Reykjadal. 

Sækja þarf um sumardvöl fyrir 1. febrúar ár hvert og vetrardvöl fyrir 1. september.

 

Hér má nálgast Umsóknareyðublað

 

Forstöðumaður Reykjadals er Margrét Vala Marteinsdóttir. Hægt er að ná í hana í síma 535-0907 eða með því að hringja í Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra í síma 535-0900.
Netfang reykjadalur@slf.is.