- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Í Reykjadal er börnum og ungmennum sem þurfa sérstaka þjónustu vegna fötlunar gefið tækifæri til að skapa ógleymanlegar minningar. Árlega koma um 250 einstaklingar í Reykjadal á aldrinum 8-21 árs.
Við leggjum áherslu á að hver og einn einstaklingur njóti sín á sínum forsendum. Í Reykjadal starfar kraftmikið og hugmyndaríkt starfsfólk sem er tilbúið að taka þátt í að gera dvölina ógleymanlega.
Vináttan er mikilvægur þáttur í starfsemi Reykjadals. Við leggjum mikla vinnu í að raða í hópa í von um að gestir okkar geti eignast vini og séu fremstir meðal jafningja.
Í Reykjadal er hugmyndafluginu sleppt lausu og þar er haft að leiðarljósi að ekkert sé ómögulegt. Lögð er áhersla á það að allir sem þangað sækja fái að njóta sín á sínum eigin forsendum og skemmti sér í góðra vina hópi.
Frá maílokum fram í miðjan ágúst er boðið upp á sumardvöl og yfir vetrarmánuðina er boðið upp á helgardvöl. Hvert barn getur dvalið í 6 - 13 daga yfir sumartímann og fengið síðan möguleikann á úthlutun á tveimur helgum yfir vetrartímann.
Sækja þarf um sumardvöl fyrir 1. febrúar ár hvert og vetrardvöl fyrir 1. september.
Forstöðumaður Reykjadals er Margrét Vala Marteinsdóttir. Hægt er að ná í hana í síma 535-0907 eða með því að hringja í Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra í síma 535-0900.
Símanúmer í Reykjadal er: 566 6234
Netfang: reykjadalur@slf.is
Við höfum góða aðstöðu í Mosfellsdalnum. Styrkir, gjafir og fjárveitingar einstaklinga og fyrirtækja spila stórt hlutverk í allri uppbyggingu. Við erum bakhjörlum okkar afskaplega þakklát. Vinir Reykjadals standa þétt við bakið á okkur.