„Ekki sjálfgefið að fjölskyldur fatlaðra barna geti farið saman í frí“

Nokkrir gestir í flugvélaflakinu á Sólheimasandi
Nokkrir gestir í flugvélaflakinu á Sólheimasandi

Átján fjölskyldur fatlaðra barna tóku þátt í sérstökum sumarbúðum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Vík í Mýrdal í sumar. Verkefnið var styrkt af félagsmálaráðuneytinu sem viðbrögð við félagslegum áhrifum Covid-19 faraldursins. Atli Lýðsson þróaði og leiddi verkefnið sem er unnið að norrænni fyrirmynd.

 „Þetta er svona Covid verkefni, eitt af kannski fáu góðu sem komu út úr Covid,“ segir Atli. Hann segir að vorið hafi verið erfitt fyrir fjölskyldur fatlaðra barna. „Það var auðvitað þannig að stofnanir og leikskólar og allt meira og minna lokaði og fólk þurfti að taka sumarfrí og vera heima hjá börnunum sínum mjög lengi og oft börnum sem þurfa mikla ummönnun og aðstoð í lífinu,“ segir Atli.

Félags- og barnamálaráðherra vildi leita leiða til að létta álagi af fjölskyldum barna með fötlun og/eða sérþarfir og hafði samband við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. Farið var af stað með þrjú verkefni fyrir fötluð börn og ungmenni í anda sumarbúðanna í Reykjadal ásamt þessu nýja verkefni í Vík í Mýrdal þar sem allri fjölskyldunni var boðið að taka þátt. Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins hafði milligöngu um val á fjölskyldum til þátttöku.

Fjölskyldurnar dvöldu á hóteli í Vík í Mýrdal frá mánudegi til föstudags. Fjölbreytt dagskrá var í boði og var starfsfólk úr sumarbúðunum í Reykjadal foreldrunum til halds og traust. Atli segir ekki sjálfgefið að fjölskyldur fatlaðra barna geti farið saman í frí. „Það er svo mikilvægt að öll fjölskyldan fái tækifæri til að vera saman í fríi og það er alls ekki sjálfgefið að þessar fjölskyldur sem komu til okkar geti farið, bara þessi litla fjölskyldueining, í frí án þess að fá til þess ákveðna aðstoð og stuðning sem er svo mikilvægur og við gátum útvegað,“ segir Atli.

Jafningjasamskipti valdeflandi

Foreldrar fatlaðra barna eru oft mjög einangraðir segir Atli og því skipti það gríðarlega miklu máli að hitta fólk í svipaðri stöðu. „Ég á sjálfur fatlaða stúlku, eða konu núna, og við fórum í svona dvöl til Noregs fyrir mörgum árum síðan og þá bara lærði ég á eigin skinni hvað svona starf er mikilvægt, bæði til að geta fræðst og líka til að geta kynnst öðrum foreldrum í sömu stöðu,“ segir hann. Atli segist trúa því að  jafningjasamskipti séu mikilvæg og að foreldrar og systkini fatlaðra barna fái tækifæri til að spegla sig í öðrum sem eru að ganga í gegnum það sama.  „Það er bara fátt sem er jafn valdeflandi og foreldrar fatlaðra barna eru oft mjög einangraðir og hafa lítil tækfæri til að „socialisera“ og fara út og lifa félaglífi þannig að þetta er alveg sérstaklega mikilvægt verkefni að því leyti,“ segir hann.

Alls staðar vel tekið í Vík

Atli hefur mikla reynslu af málefnum fatlaðra. Auk þess að eiga fatlaða dóttur er hann fyrrverandi framkvæmdastjóri Fjölmenntar og sat í framkvæmdaráði Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Undanfarin ár hefur Atli starfað sem leiðsögumaður þannig hann hefur einnig mikla reynslu af því að skipuleggja skemmtilegt frí. Hliðarábati af verkefninu var að skapa atvinnu og því lagt upp með að hafa það á landsbyggðinni á stað sem hafði komið illa undan Covid-19 faraldrinum. Vík í Mýrdal varð fyrir valinu.

„Okkur var mjög vel tekið í Vík í Mýrdal og frá því ég hringdi fyrsta símtalið fékk ég alltaf sama svarið. Já, ekkert mál, við björgum því, reddum því, alveg sjálfsagt, en spennandi, en gaman, verið til velkomin. Þetta bara voru setningarnar sem ég fékk, endalaust, það var svo frábært,“ segir Atli með bros á vör.

„Dýrmætt og mikilvægt fyrir þennan hóp að fá þessi tækifæri áfram“

Atli segir fulla ástæða til að halda áfram með verkefnið. „Ég ætla að gera allt sem ég get og ég veit að Styrktarfélagið ætlar að gera það líka. Ég held að það séu allir sammála um að það hafi tekist vel og það sé mjög dýrmætt og mikilvægt fyrir þennan hóp að fá þessi tækifæri áfram,“ segir Atli.