Forseti Íslands heimsótti Reykjadal

Það stóð mikið til í Reykjadal síðastliðinn mánudag því sjálfur forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kom í heimsókn. Það voru þrír af gestum Reykjadals sem buðu forsetanum að koma að skoða sumarbúðirnar. Þeir fengu starfsmann Reykjdals til þess að senda forsetanum bréf fyrir þeirra hönd.

Eliza Reid forsetafrú kom með eiginmanni sínum í Reykjadal ásamt yngsta barni þeirra hjóna, Eddu Margréti. Þau þáðu kaffi og kökur ásamt gestum Reykjadals, starfsfólki, meðlimum úr stjórn og framkvæmdaráði.

Veðrið var eins og best verður á kosið og á meðan forsetinn fór í kynnisferð um Reykjadal fóru gestirnir í sund og renndu sér í vatsrennibraut sem var búið að koma upp á fótboltavellinum.

Gestir Reykjadals gáfu forsetahjónunum svo stuttermaboli sem þeir höfðu séð um að skreyta fyrir alla fjölskylduna á Bessastöðum. Þá gáfu vinir okkar og nágrannar í Dalsgarði rósir í tilefni dagsins og forsetafrúin var leyst út með rósum.

Við þökkum forsetahjónunum og Eddu litlu kærlega fyrir komuna!