Förum út saman!

Á dögunum birtist grein eftir Kolbrúnu Kristínardóttur sjúkraþjálfara á Æfingastöðinni í fréttabréfi Umhyggju. Við fengum að endurbirta greinina: Förum út saman!

Þegar ég geng á fjöll og er úti í náttúrunni finn ég hvernig líkaminn róast, hugsunin verður skýrari og það er eins og ég stingi sjálfri mér í samband og hlaði inn orku til að geta betur tekist á við hið daglega amstur. Við fjölskyldan erum mikið í útiveru og samverustundir í náttúrunni eru nauðsynlegur partur af fjölskyldulífinu. Við förum í fjallgöngur sem henta yngsta fjölskyldumeðlimnum, sofum í tjaldi, förum í stjörnuskoðun, eldum okkur kvöldmat eða steikjum pönnukökur úti í náttúrunni. Það skiptir ekki öllu hvað við gerum, okkur líður einfaldlega vel þegar við erum saman úti og það skapast allt önnur nánd í náttúrustundum.  

Foreldrar sem fyrirmyndir
Dagleg hreyfing er okkur öllum nauðsynleg enda líkami okkar ekki gerður fyrir mikla kyrrsetu - hann er gerður fyrir að vera á hreyfingu. En í nútíma samfélagi er kyrrseta stór hluti af degi margra og kröfurnar um að við hreyfum okkur í hinu daglega lífi eru alltaf að minnka. Kyrrsetan er orðin svo mikil að hún flokkast nú sem ein mesta heilsuógn mannkyns og fjórða algengasta orsökin fyrir ótímabærum dauða  á heimsvísu. Til að snúa þróuninni til betri vegar og ekki síst til að veita börnunum okkar betri heilsu út í lífið, þurfum við að vera virk í hreyfingu með börnunum. Virk samvera fjölskyldunnar er ein besta forvörnin því þegar kemur að hreyfingu og heilsuhegðun barna eru það við foreldrar sem erum mikilvægasta fyrirmyndin. Þó svo að margir samvirkandi þættir í umhverfinu geti haft áhrif á heilsu og vegferð barna gegnum lífið, eru það alltaf foreldrarnir sem eru stærstu áhrifavaldarnir. Fyrstu æviárin hafa mikið forspárgildi um heilsu einstaklinga síðar í lífinu og það sem við gerum með börnunum okkar í dag hefur áhrif á lifnaðarhætti þeirra og heilsu seinna meir.

Að leika úti
Það er því miður staðreynd að börn leika sér minna úti en áður og útileikurinn er í harðri samkeppni við tölvur, síma og þéttpakkaðar stundaskrár. Frjáls leikur er nauðsynlegur öllum börnum og hefur jákvæð áhrif á nánast alla þroskaþætti barna; líkamlegan- og andlegan þroska, félagsþroska og vitsmunaþroska. Í gegnum leikinn og hreyfingu læra börnin best. En útileikur og þá sérstaklega leikur úti í náttúrunni hefur sýnt sig að hafa enn jákvæðari áhrif t.d. á andlega líðan, hreyfifærni, sjálfstraust, útsjónarsemi, hugmyndaauðgi, úthald og hreysti. Náttúran hefur líka róandi áhrif á börn og þau leika sér betur saman úti, þau leika meira þvert á hópinn og það er minna um ósætti og rifrildi í útileiknum. Það er því til mikils að vinna og til að auka útiveru barna er ein áhrifaríkasta leiðin að fjölskyldan fari saman út. Ekki skemmir fyrir hvað útiveran er skemmtilegt samveruform og samverustundir  í náttúrunni nærandi fyrir sál og líkama.

Áhrif náttúrunnar
Undanfarin ár hafa komið fram fjöldi rannsókna sem sýna fram á mikilvægi náttúrunnar fyrir andlega og líkamlega heilsu. Til dæmis dregur útivera í náttúrunni  úr streitu og léttir lundina - við verðum glaðari af því að vera úti. Það mælast jákvæð áhrif á heilsuna af því einu að vera úti í náttúrunni, óháð því hvað þú ert að gera þar. Náttúran dregur úr kvíða og hreyfigleðin verður ráðandi, við tökum ekki eftir því að við séum að „púla“ og komum endurnærð inn eftir hressandi útiveru. Að fara saman út í náttúruna er þess vegna ekki bara skemmtileg samvera heldur nauðsynleg og eflandi heilsubót fyrir alla meðlimi fjölskyldunnar. Síðast en ekki síst er útiveran sennilega ódýrasta líkamsræktin og hentar öllum, allt frá þeim yngstu til þeirra elstu. Það er alltaf hægt að finna útiveru við hæfi, hvort heldur sem það eru fjallgöngur eða göngustígarölt á náttúrusvæðum. Það sem skiptir máli er að „kúpla“ sig út úr amstrinu og njóta þess að vera saman úti.

Ekki láta veðrið stoppa þig
Það er staðreynd að veðrið á Íslandi er okkur ekki alltaf hliðhollt en það eru þó ekki margir dagar á ári þar sem veðrið er svo slæmt að við getum ekki farið út. Það er nefnilega ekki til neitt sem heitir leiðinlegt veður, við þurfum bara að klæða okkur eftir veðrinu. Þegar veðrið heftir för okkar og við þurfum að berjast á móti rokinu til að komast aftur í bílinn ættum við ekki að líta á það sem misheppnaða útiveru heldur frábæra minningu. Að skapa minningar með börnunum okkar er mikilvægt og minningin af brjáluðu veðri og heitum kakóbolla þegar heim er komið er ekkert síðri en minning af nestispásu í logni og sól.

Samverustundir eru frábær forvörn – förum út saman og sköpum minningar, upplifum og njótum í náttúrunni.

Útivistarreglur barnanna:
1. Öll börn geta stundað útivist
2. Leyfið börnunum að vera með í undirbúningnum
3. Leyfið börnunum að stýra hraðanum
4. Munið að taka pásur inn á milli og setja ykkur minni markmið, t.d. að ganga heim að næsta hól og hvíla sig þar áður en haldið er áfram
5. Gefum okkur tíma í leik og upplifun
6. Spjöllum um það sem við sjáum í náttúrunni og það sem við upplifum saman
7. Hafið alltaf með smá nesti í för. Lítill súkkulaðibiti getur gert kraftaverk þegar orkutankurinn tæmist.

 

Kolbrún Kristínardóttir,
Sjúkraþjálfari á Æfingastöðinni