Gáttaþefur er jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 2019

Gáttaþefur eftir Karitas Sveinsdóttur og Hafstein Júlíusson og kvæði eftir Lindu Vilhjálmsdóttur
Gáttaþefur eftir Karitas Sveinsdóttur og Hafstein Júlíusson og kvæði eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

Gáttaþefur er jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 2019. Karitas Sveinsdóttir og Hafsteinn Júlíusson hjá HAF STUDIO sáu um hönnun Gáttaþefs og Linda Vilhjálmsdóttir skáld samdi kvæði um kappann. Allur ágóði af sölu Gáttþefs rennur Æfingastöðvarinnar. Gáttaþefur verður seldur í verslunum um land allt 7.-21.desember. Tekið er við forpöntunum á www.jolaoroinn.is

Þetta er í fjórtánda sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út jólaóróann. Kertasníkir var fyrstur í röðinni en hann kom út fyrir jólin 2003. Gáttaþefur prýðir Óslóartréð á Austurvelli en ljósin verða tendruð á trénu kl. 16 í dag. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið með því að skreyta Óslóartréð með óróa ársins. 

Í jólaóróaseríunni fara saman íslenskur menningararfur, íslensk hönnun og ritsnilld ásamt mikilsverðu málefni. Markmiðið með gerð og sölu jólaóróanna er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Allur ágóði rennur til Æfingastöðvarinnar sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra á og rekur.

Hönnunarteymið HAF STUDIO skipa hjónin Karitas Sveinsdóttir (1987) og Hafsteinn Júlíusson (1984). Karitas lærði innanhússarkitektúr við Istituto Europeo di Design í Mílanó og Hafsteinn lauk vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands og meistaragráðu í innanhúss- og iðnhönnun frá Scuola Politecnica di Design í Mílanó. Að loknu námi árið 2011 héldu þau hjónin heim og stofnuðu HAF STUDIO, sem er til húsa í gamalli verbúð við Geirsgötu. Nýverið opnuðu þau verslunina HAF STORE í sama húsnæði, þar sem vöruúrvalið samanstendur af hlutum sem þau hanna og framleiða sjálf í bland við aðra sérvalda, innflutta hönnun. HAF STUDIO hefur notið mikilla vinsælda og vakið verðskuldaða athygli fyrir hönnun sína – allt frá smáhlutum til innréttinga og yfir í veitingastaði og verslanir. Má þar nefna meðal annars; Stjaki og Stjakur kertastjakana, veitingastaðinn Zócalo í Stokkhólmi, Loksins Bar og verslun 66°Norður á Keflavíkurflugvelli.

Linda Vilhjámsdóttir (1958) er sjúkraliði að mennt og hefur frá því að fyrsta ljóðabók hennar, Bláþráður, kom út árið 1990 skipað sér sess meðal fremstu skálda landsins. Ljóð Lindu eru gjarnan pólitísk, oft hárbeitt en jafnframt meitluð. Frá því fyrstu ljóð Lindu birtust opinberlega árið 1982, hafa verk hennar verið sett á svið og birst í blöðum, bókum og safnritum hérlendis og erlendis, auk þess sem hún hefur komið fram á bókmenntahátíðum víða um heim. Linda hefur hlotið verðskuldað lof, fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín. Hún fékk Menningarverðlaun DV og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir bókina Frelsi sem kom út árið 2015 og þýdd hefur verið á nokkur tungumál. Þá var Linda tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir sömu bók og árið 2018 hlaut húna verðlaun pólsku bókmenntahátíðarinnar „Evrópsk frelsisskáld“.  

Linda, Karitas og Hafsteinn gáfu okkur alla vinnu sína og söluaðilar taka enga þóknun við söluna. Þessi stuðningur er ómetanlegur því allur ágóði af sölunni rennur til Æfingastöðvarinnar.

Sala Gáttaþefs fer fram í gjafavöruverslunum um land allt dagana 7. - 21. desember og í netverslun Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra http://www.jolaoroinn.is