Nemendur í HÍ söfnuðu 15,6 milljónum fyrir Reykjadal!

Í gær afhendu aðstandendur söfnunarátaksins Upplifun fyrir alla aðstandendum Reykjadals 15.617.694 krónur, sem er afrakstur þessa frábæra átaks. 

Styrktarsöfnunin „Upplifun fyrir alla“ var haldin á vegum meistaranema við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands undir leiðsögn Elmars Hallgríms Hallgrímssonar lektors. 
 
Söfnunin stóð yfir dagana 9.-23. febrúar síðastliðinn og samanstóð af fjölbreyttum viðburðum sem vöktu mikla athygli, m.a. fjölskyldubingói á Háskólatorgi, kvikmyndasýningu í Háskólabíó, líkamsræktartímum í World Class og fjöltefli í Smáralind.
 
Að söfnuninni komu þrjátíu nemendur með fjölbreyttan bakgrunn sem ásamt tengiliðum úr atvinnulífinu hófu námskeiðið með það eina verkefni að standa að styrktarsöfnun fyrir sumarbúðirnar í Reykjadal. Var það verkefni nemenda að finna fjáröflunarleiðir og framkvæma þær á þeim sex vikum sem námskeiðið stóð yfir. Það má með sanni segja að það hafi gengið vonum framar og nemendurnir hafi lagt sig alla fram um að ná sem bestum árangri enda afraksturinn hreint út sagt frábær. Átakið vakti gríðarlega athygli í samfélaginu öllu á meðan á því stóð og jókst áhugi almennings í kjölfarið á málefnum Reykjdals og almennri þekkingu á staðnum. 
  
Fyrir hönd Reykjadals og Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og allra þeirra sem koma til með að njóta góðs af þessu frábæra framtaki viljum við þakka þeim sem að þessu stóðu og þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem studdu verkefnið! Stuðningurinn er okkur ómetanlegur.