Peggy handhafi Kærleikskúlunnar 2016

Peggy Oliver Helgason er handhafi Kærleikskúlunnar 2016. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Peggy kúluna við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum sem þakklætisvott fyrir starf hennar í þágu langveikra og fatlaðra barna og ungmenna.

Peggy hefur stutt langveik og fötluð börn með ýmsum hætti. Í ríflega tuttugu ár hefur hún mætt í trúðsgervi á Barnaspítala Hringsins til að skemmta þeim börnum sem þar dvelja. Þar fær hún bæði börn og starfsfólk spítalans með sér í leik og er í senn fyndin og kærleiksrík. Þá var Peggy forsprakki þess að Vildarbarnasjóður Icelandair var stofnaður ásamt eiginmanni sínum Sigurði Helgasyni, stjórnarformanni Icelandair Group og fyrrum forstjóra Flugleiða. Sjóðurinn styrkir langveik börn og börn sem búa við sérstakar aðstæður til ferðalaga. Þá hafa þau hjónin hafa um árabil styrkt bæði langveik og fötluð börn með fjárframlögum. Til að mynda hafa þau greitt fyrir dvöl nokkurra barna í sumarbúðunum í Reykjadal.

Þetta er í fjórtánda sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra selur Kærleikskúluna. Allur ágóði af sölunni rennur til sumar- og helgarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjadal.

Sala kúlunnar hefst föstudaginn 2. desember og stendur yfir til 16. desember.