Samverustundir í náttúrunni mikilvægar lýðheilsu

„Útivera og samverustundir fjölskyldunnar úti í náttúrunni skipta miklu máli fyrir lýðheilsu barna og unglinga.“ Þetta er niðurstaða meistararannsóknar Kolbrúnar Kristínardóttur sjúkraþjálfara um gildi og viðhorf íslenskra og norskra foreldra til frítíma fjölskyldunnar, útiveru og náttúrustunda í uppvexti barna.

Kolbrún, sem er nýkomin aftur til starfa hjá Æfingastöðinni, hélt erindi um niðurstöðu rannsóknarinnar á degi sjúkraþjálfunar síðastliðinn föstudag en erindið kallaði hún „Ég vil fá þau með mér út“. Rannsóknin var liður í meistaranámi hennar við Háskólann í Lillehammer, þaðan sem hún útskrifaðist vorið 2016.

Kolbrún starfaði á Æfingastöðinni frá því hún útskrifaðist sem sjúkraþjálfari vorið 2006 og þar til hún flutti til Noregs haustið 2007. Í Noregi starfaði hún sem sjúkraþjálfari barna og unglinga, meðal annars í þverfaglegu teymi á taugadeild barna við Ullevaal sjúkrahúsið í Oslo. Hún starfaði einnig í heilsugæslunni í tengslum við ungbarnaeftirlit, auk sjúkraþjálfunar barna og unglinga í leikskólum, skólum og í heimahúsum.

Kolbrún er nú flutt aftur heim og hóf aftur störf hér á Æfingastöðinni 1.febrúar.