Starfsmenn Össurar vinna í Reykjadal þriðja árið í röð

Sundlaugin spúluð
Sundlaugin spúluð

Um fimmtíu starfsmenn Össurar tóku til hendinni í Reykjadal síðatliðinn föstudag. Þetta er þriðja árið í röð sem starfsfólk Össurar gefur Reykjadal heilan vinnudag og kemur til að sinna ýmiss konar viðhaldi.

Starfsfólkið sat sannarlega ekki auðum höndum og voru verkefnin fjölbreytt, til að mynda þreif starfsfólkið sundlaugina, málaði, bar á útihúsgögn og sópaði lóðina. Nú fer allt að verða klárt fyrir komu fyrstu gesta sumarsins og alveg ómetanlegt að fá hjálp frá duglegu starfsfólki Össurar. Framlag þeirra skiptir sköpum. Stuðningur Össurar hefur verið margvíslegur í gegnum árin og erum við afskaplega þakklát vinum okkar hjá Össuri.

Það er ýmislegt annað að gerast á útisvæði Reykjadals þessa dagana. Ærslabelgur hefur verið settur upp í "trampolíngarðinn" auk þess sem verið er að setja upp pall fyrir framan húsið. Hann verður t.d. hægt að nýta þegar gestir vilja bregða sér út á pall að borða í góða veðrinu.