Trausti býður upp á nýja möguleika í þjálfun hreyfihamlaðra barna

Katrín Sara og Rósa sjúkraþjálfari sýna Trausta og göngubrettið Gönguhrólf í notkun.
Katrín Sara og Rósa sjúkraþjálfari sýna Trausta og göngubrettið Gönguhrólf í notkun.

Æfingastöðin hefur fengið GaitKeeper göngubretti og Litegate hjálpartæki að andvirði 1,5 milljóna króna að gjöf frá Íslandshótelum. Tækin eru sérhönnuð fyrir hreyfihömluð börn en Litegate hjálpartækið sem hefur fengið nafnið Trausti veitir börnum og unglingum sem ekki geta staðið eða gengið án stuðnings tækifæri til fjölbreyttrar þjálfunar.

Hjálpartækið Trausti er hannað til notkunar með göngubrettinu en Trausta má einnig nota við ýmiss konar aðra þjálfun. Freyja Skúladóttir sjúkraþjálfari á Æfingastöðinni segir að Trausti veiti barninu frelsi til fjölbreyttrar þjálfunar og leiks. „Börn sem geta ekki staðið eða gengið án stuðnings nota oftast göngugrindur til að ganga með en þá eru hendur þeirra alltaf bundnar við að halda í göngugrindina en með Trausta getur barnið fengið þann stuðning sem það þarf til að standa eða ganga en hefur samt fríar hendur og getur þá gert svo ótal margt með höndunum,“ segir Freyja. Þá veiti Trausti þjálfaranum einnig færi á að nota sínar hendur við að styðja við barnið og virkja það í leik, sem sé mjög mikilvægt við þjálfun barna.

Ólafur Torfason stjórnarformaður Íslandshótela afhenti tækið við hátíðlega athöfn á Æfingastöðinni í gær. Þá sýndu Freyja, Rósa Guðsteinsdóttir og Guðbjörg Eggertsdóttir sjúkraþjálfarar á Æfingastöðinni hvernig tækið virkar með aðstoð tveggja ungra skjólstæðinga, Katrínar Söru og Björgvins Arnars. Fréttamaður Stöðvar 2 kom í heimsókn og tók upp frétt sem má sjá með því að smella hér.

Við þökkum Íslandshótelum kærlega fyrir þessa góðu gjöf.