Erfðagjafir

Með erfðagjöf er hægt að láta gott af sér leiða eftir sinn dag. Til þess að erfðagjöf rati á réttan stað þarf að gera erfðaskrá. Styrktarfélaginu hafa borist erfðagjafir sem hafa skipt gríðarlega miklu máli í allri uppbyggingu félagsins. Hafa gjafirnar meðal annars  verið nýttar til húsnæðisframkvæmda og tækjakaupa. Tveir sjóðir eru í vörslu félagsins sem stofnaðir voru vegna erfðagjafa en það er Sjóður Kristínar Björnsdóttur fyrrverandi starfsmanns Sameinuðu þjóðanna og Minningarsjóður Jóhönnu og Svanhvítar Erasmusdætra.

Erfðagjafir eru töluvert algengar í nágrannalöndum okkar. Almannaheill hefur vakið athygli á fyrirbærinu með upplýsingasíðunni www.erfdagjafir.is og átakinu „Gefðu framtíðinni forskot með erfðagjöf“ í samstarfi við Blindrafélagið, Krabbameinsfélagið, Rauða krossinn, SOS barnaþorpin, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og UNICEF á Íslandi. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra er stofnaðili Almannaheilla.

Hver sá sem hefur náð 18 ára aldri getur ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá. Í íslenskum erfðalögum kemur fram að lögerfingjar erfa 2/3 hluta eigna en heimilt er að ráðstafa þriðjungi eigna með erfðaskrá.  Þeir sem ekki hafa lögerfingja geta ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá. Ef það er ekki gert rennur arfurinn til ríkissjóðs.

Lögmenn Lækjargötu veita þeim sem vilja gefa Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, Reykjadal eða Æfingastöðinni erfðagjöf aðstoð án endurgjalds. Hægt er að hafa samband í síma 512 1220 eða senda fyrirspurn á logmenn@laekjargata.is