Saga SLF

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra var stofnað 2. mars árið 1952. Markmið félagsins var þá að veita fötluðu fólki, einkum börnum, allan þann stuðning sem félagið hafði tök á og stuðla að aukinni orku, starfshæfni og velferð þess.

Fyrsta verkefni félagsins var stofnun og rekstur endurhæfingarstöðvar í kjölfar lömunarveikifaraldurs árið 1955. Fest voru kaup á íbúðarhúsnæði að Sjafnargötu 14 í Reykjavík og hófst starfsemi stöðvarinnar í byrjun árs 1956. Þar var hún starfrækt í 12 ár eða til ársins 1968 þegar starfsemin var flutt í núverandi húsnæði að Háaleitisbraut 11-13 í Reykjavík. Við þann flutning varð aðstaðan mjög góð, þótti jafnvel með því besta sem þekktist á Norðurlöndum. Fyrstu starfsmenn félagsins voru tíu talsins en nú starfa hátt í fjórir tugir starfsmanna á staðnum. Árið 1982 var tekin í notkun viðbygging við Háaleitisbraut og er húsnæði félagsins nú um 1900 m2.


Árið 1972 hóf SLF rekstur leikskóla í húsakynnum sínum við Háaleitisbraut til þess að bæta úr brýnni þörf fyrir dagvist fatlaðra barna, enda hafði ekkert félag sinnt dagvist fyrir þau fram að því. Var þessi starfsemi í húsinu næstu þrjú árin eða þar til hún flutti í nýbyggingu Reykjavíkurborgar að Múlaborg. Eftir flutninginn var um samstarfsverkefni að ræða milli Reykjavíkurborgar og SLF um nokkurn tíma.

 

Æfingastöðin
Í september árið 2000 var stofnað útibú Æfingastöðvarinnar í Hafnarfirði þar sem allt að 25 börn geta sótt iðjuþjálfun að jafnaði. Útibúið, sem staðsett er í íþróttahúsinu að Strandgötu í Hafnarfirði, er rekið í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.

Árið 2000 náðist merkur áfangi þegar gerður var 5 ára þjónustusamningur við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um Æfingastöðina sem treysti mjög stöðu félagsins. Á hverju ári koma um 1400 einstaklingar í sjúkra- og/eða iðjuþjálfun á Æfingastöðinni. Meirihluti skjólstæðinga eru börn.   

 

Reykjadalur
Árið 1959 hóf SLF rekstur sumarbúða fyrir fötluð börn. Var starfsemin í Reykjaskóla í Hrútafirði og Varmalandi í Borgarfirði, en árið 1963 festi félagið kaup á Reykjadal í Mosfellssveit sem framtíðarstað fyrir þessa starfsemi.

Á upphafsárum starfseminnar komu bæði fötluð og ófötluð börn til sumardvalar í Reykjadal. Til að byrja með var Reykjadalur aðeins starfræktur að sumarlagi, en 1990 hófst regluleg starfsemi að vetrarlagi um helgar. Sumarið 1973 urðu straumhvörf í starfsemi Reykjadals þegar ríkið ákvað að styrkja starfsemina sem nam umönnun 30 barna. Ófötluð börn hættu þá að koma í Reykjadal og hvert barn fékk þar af leiðandi aukna umönnun og athygli. Mikil breyting hefur orðið á sumarstarfseminni og í dag koma um 250 börn og ungmenni á hverju sumri í Reykjadal.

Haustið 1969 hófst rekstur heimavistarskóla fyrir fötluð börn í Reykjadal. Skólinn í Reykjadal mætti þörfum mikið fatlaðra barna sem ekki gátu með góðu móti stundað sinn hverfisskóla. Árið 1975 var skólakerfið loks reiðubúið að taka við þessum nemendum, þegar stofnuð var sérdeild fyrir fötluð börn í Hlíðaskóla í Reykjavík.

Sundlaug var tekin í notkun vorið 1965 en sund og leikur í vatni hefur alla tíð verið mikilvægur þáttur í starfsemi sumarbúðanna. Sundlaugin var mikið notuð allt þar til sumarið 1994 er ný sundlaug var vígð í Reykjadal. Nýja sundlaugin var mikil lyftistöng fyrir staðinn, en söfnun fyrir henni hafði staðið yfir frá árinu 1989.

 

Ómetanlegur stuðningur velunnara
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefði ekki skilað jafn miklu verki og raun ber vitni ef það hefði ekki alla tíð notið fórnfúsra sjálfboðaliða. Það voru sjálfboðaliðar sem stofnuðu félagið 1952 og sjálfboðaliðar hafa borið starfsemina uppi allar götur síðan. Kvennadeild SLF, sem hætti starfsemi árið 1995, var alla tíð öflug við söfnun fjár til starfseminnar og telja má víst að án hennar hefði Reykjadalur aldrei blómstrað eins og raun varð á. Þáttur félaga í Kiwanisklúbbnum Viðey í Reykjavík er jafnframt lofsverður, en stærsta verkefni klúbbsins var söfnun fyrir byggingu nýrrar sundlaugar í Reykjadal. Leitað var til landsmanna og tókst að safna nær tveimur þriðju hlutum þess fjár sem kostaði að byggja sundlaugina.

Grein um sögu Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.