Skrifað undir samning um Jafningjasetur Reykjadals og ráðherranum hent í laugina

Vilmundur Gíslason framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Hörður Sigurðsson formaður S…
Vilmundur Gíslason framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Hörður Sigurðsson formaður Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Margrét Vala Marteinsdóttir forstöðukona Reykjadals

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skrifaði í dag undir samning við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra um Jafningjasetur Reykjadals. Ráðherrann kom í heimsókn í sumarbúðirnar í Reykjadal síðdegis og var hent í sundlaugina í öllum fötunum.

Markmið Jafningjaseturs Reykjadals er að efla og styrkja fötluð ungmenni með því að auka möguleika þeirra á félagslegum tengslum og bjóða þeim upp á valkosti í tómstunda-, frístunda- og menningarstarfi. Jafningjasetrið á að svipa til félagsmiðstöðvar. Margrét Vala Marteinsdóttir forstöðukona Reykjadal fékk hugmyndina að jafningjasetrinu eftir margra ára starf í sumarbúðum Reykjadals. Hún telur mikla eftirspurn eftir þjónustu sem þessari.

„Með þessari þjónustu er hægt að auka tækifæri á frístunda- og tómstundastarfi fyrir fötluð börn og ungmenni og í leiðinni rjúfa félagslega einangrun og stofna til vináttusambanda á jafningjagrundvelli sem gætu varað ævilangt,“ segir Margrét Vala.

„Það verður félagsmiðstöðvarbragur á þessu. Lögð verður áhersla á þjónandi leiðsögn í starfinu og fær starfsfólk fræðslu og þjálfun í að vinna með fötluðum börnum og ungmennum með ólíkar stuðningsþarfir.“

Margrét Vala og Ásmundur Einar skrifuðu undir samstarfssamninginn í Reykjadal í dag og var starfsfólk Reykjadals viðstatt. Ásmundur þakkaði starfsfólki fyrir frábært sumar en vegna stuðnings frá félagsmálaráðuneytinu var hægt að bjóða upp á fjóra nýja valkosti á vegum Reykjadals um land allt og taka á móti hátt í 500 einstaklingum. Þannig tókst að stytta biðlistann í Reykjadal þannig að allir sem höfðu verið á biðlista árið 2020 fengu pláss. Sem þakklætistvott fyrir styrkveitinguna henti starfsfólk ráðherranum í sundlaugina í Reykjadal, en hefð er fyrir því að henda góðum gestum í laugina í öllum fötunum. Ásmundur tók vel í þetta uppátæki.