2 málarar - ERRÓ 2003

2 málarar eftir Erró er fyrsta Kærleikskúlan sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gaf út. Myndin sem prýðir kúluna er úr röð verka sem Erró gerði árið 1984. Hún er eins og flest verka hans byggð á tilvísunum í myndir annarra, að þessu sinni eru það verk meistaranna Picasso og Léger.

Orðin þrjú "PAIX - LIBERTÉ - SOLIDARITÉ " eða “FRIÐUR - JAFNRÉTTI - BRÆÐRALAG " eru boðskapur myndarinnar.

Í gegnum tíðina hafa megin viðfangsefni Errós verið saga listarinnar, erótík, pólitík, ævisögur, skáldsagnapersónur, teiknimyndahetjur og vísindaskáldskapur.

ERRÓ

Erró (Guðmundur Guðmundsson) fæddist í Ólafsvík árið 1932, en ólst upp að Kirkjubæjarklaustri. Erró sem er án efa þekktasti samtímalistamaður Íslendinga, stundaði listnám hér heima og síðar m.a. í Noregi og á Ítalíu. Hann hefur verið virkur þátttakandi í listalífi Parísarborgar frá árinu 1958, bæði innan súrrealistahreyfingarinnar og sem einn af forvígismönnum popplistarinnar.  Hann hefur haldið fjölda sýninga víða um heim, bæði einn og í samstarfi við aðra. Erró hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á ferli sínum, m.a. verið sæmdur Fálkaorðunni og frönsku heiðursnafnbótinni Officier de l'Ordre des Arts et des Lettres.