Augað - Ólafur Elíasson 2004

Augað eftir Ólaf Elíasson kom út árið 2004 og er önnur kúlan sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gaf út.

„Uppspretta verksins er augað. Augun eru stórkostlegt verkfæri, þau eru farvegur fyrir samskipti, þau hafa áhrif á skilning okkar og skoðanir á okkur sjálfum, öðrum, umhverfinu –  heiminum!“

Þannig lýsir Ólafur verkinu. “Ég hef mikla ánægju af því að leika mér með eitthvað sem mér þykir fallegt. Fegurð er varasamt orð vegna þess að það er búið að staðla það og gera að einhverri klisju. Því ættum við kannski að tala um fagurfræði frekar en fegurð. Oft getur eitthvað sem er mjög ljótt við ákveðnar aðstæður orðið ótrúlega fallegt við aðrar. Svo fegurð er ekki einangrað fyrirbæri, hún er frekar spurning um eitthvað sem er einhvers virði og virði má alltaf semja um,” segir Ólafur. 

Handahafi kúlunnar árið 2004 var Freyja Haraldsdóttir, þá 18 ára gömul námsmey, klár stelpa og kjarkmikil. Andleg reisn hennar, æðruleysi og viðhorf til lífsins voru sögð eftirtektarverð og til eftirbreytni. Hún var talin verðug fyrirmynd.Viðhorfum sem hennar mætti halda meira á lofti - hún hefur með þeim haft áhrif á aðra til góðra verka, verið hvatning til að líta inn á við og leita þess góða í eigin fari og annarra. 

Ólafur Elíasson

Ólafur Elíasson er fæddur árið 1967 í Kaupmannahöfn og stundaði listnám þar við Konunglega listaháskólann á árunum 1989 til 1995. Ólafur sem er heimsþekktur listamaður hefur haldið fjölmargar sýningar víða um heim, bæði einn og í samstarfi við aðra. Einkasýningar hans hafa vakið gríðarlega athygli og er þar skemmst að minnast sýninga hans í Tate Modern og Listasafni Reykjavíkur. Verk Ólafs er að finna bæði í almennings- og einkasöfnum hér heima og erlendis þar á meðal í Solomon R. Guggenheim-safninu í New York, Nýlistasafninu í Los Angeles, Deste-stofnuninni í Aþenu, Tate Modern í London og Listasafni Reykjavíkur. Hann býr og starfar í Berlín.