Án upphafs - Án endis - Rúrí 2005

Án upphafs - Án endis eftir Rúrí er Kærleikskúla ársins 2005.

Svona lýsir Rúrí kúlunni:

“Orðin vísa til þess að kærleikurinn á sér hvorki upphaf né endi.

Hann er óskilyrtur - óendanlegur - hann er.

Eins er með fossinn - hann rennur án afláts– hann er.

Fullkomin kúla hefur hvorki upphaf né endi, á sama hátt og hnötturinn okkar, Jörðin, er ein samfelld heild.

Einn af hinum máttugu fossum landsins birtist í brothættu, svífandi listaverkinu, sem örsmáum heimi, sem aftur kallast á við og speglar alheim þar sem jörðin svífur um í ómælisgeimi.”

Rúrí

Rúrí er fædd árið 1951 í Reykjavík, stundaði listnám þar og síðar í Hollandi. Hún hefur alla tíð starfað og haldið sýningar á alþjóðlegum vettvangi, ýmist ein eða í samstarfi við aðra. Verk Rúríar eru hugmyndafræðislegs eðlis og hafa vakið verðskuldaða athygli. Þau er að finna í almennings- og einkasöfnum víða um heim. Útiverk hennar eru afar áberandi, svo sem Regnbogi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, auk verka í Svíþjóð, á Ítalíu og víðar. Rúrí var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2003 og vakti verk hennar Archive - Endangered Waters heimsathygli. Rúrí, sem er Borgarlistamaður Reykjavíkur 2005, hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir list sína m.a. verið sæmd sænsku Prince Eugen orðunni.