Hringur - Eggert Pétursson 2007

HRINGUR eftir Eggert Pétursson er Kærleikskúla árins 2007. Svona lýsir Eggert verkinu:

Eftir vetur kemur vor, síðan sumar, haust og aftur vetur. 
Af gróðrinum lesum við framrás tímans. 
Þó sígrænt sé, má greina litamun á grænum laufum Sortulyngsins eftir árstíðum. 
Sortulyngið ber blóm að vori. 
Blómið verður að beri sem þroskast yfir sumartímann og um haustið er berið orðið skærrautt. 
Lyngið dvelur undir snjónum og birtist aftur vorgrænt og blómgast á ný. 
Fræin skjóta rótum. 

Lífskeðjan er óslitinn hringur.

Eggert Pétursson

Eggert Pétursson fæddist í Reykjavík 1956.  Hann nam við Myndlista og handíðaskóla Íslands og síðar í Jan van Eyck Academie í Maastricht, Hollandi. Eggert hefur vakið alþjóðlega athygli fyrir sérstæð málverk sín af íslenskri flóru, en hún vakti snemma áhuga hans.  Málverk Eggerts virðast oft einlit eða abstrakt í fjarlægð, en þegar nær er komið opnast undraheimur flórunnar.  Hvert laufblað og hvert krónublað er málað af einstakri natni.  Þekking Eggerts á viðfangsefninu kemur glöggt fram í myndskreytingum hans í íslenskri flóru Ágústs H. Bjarnasonar sem kom út árið 1983.  Eggert, sem er í fremstu röð íslenskra listmálara, hlaut önnur verðlaun Carnegie Art Award 2006.