Salt jarðar - Gabríela Friðriksdóttir 2006

SALT JARÐAR eftir Gabríelu Friðriksdóttur er Kærleikskúla ársins 2006. Svona lýsir hún kúlunni:

Óteljandi agnir mynda landslag sem breiðir úr sér og þekur jörðina
Þar vaxa áferðarmiklir, litlir og kynlegir kvistir
Landslag sem mótar og nærir hin margvíslegu lífsform og andann sem innan og utan þess býr
Það er lífsvilji sálarinnar og vonin sem mynda samfélög heimsins  

Að viðurkenna, varðveita og virða  hið skapandi afl margbreytileikans er
krydd lífsins – SALT JARÐAR

Gabríela Friðriksdóttir

Gabríela Friðriksdóttir er fædd árið 1971 í Reykjavík, stundaði listarnám þar og síðar í Prag. Gabríela notar ólíka miðla til tjáningar og einkennast verk hennar af frumleika og dirfsku. Þau eru á jaðri hins hlutbundna og óhlutbundna og hins mannlega og dýrslega. Hún leitar svara í
því sem gerist á mörkum dags og drauma, á milli hins rökvísa og röklausa og í spennunni milli hugar- og efnisheims. Gabríela, sem hlotið hefur fjölda viðurkenningar fyrir list sína, hefur skapað sér sess sem einn frumlegasti og áhugaverðasti listamaður sinnar kynslóðar.