Allt sem andann dregur - Gjörningaklúbburinn 2008

ALLT SEM ANDANN DREGUR eftir Gjörningaklúbbinn er kærleikskúla ársins 2008.

 

Kærleikskúlan er blásin upp af því dýrmætasta sem hverri lifandi manneskju er gefið, andardrætti.
 

Andinn í kúlunni er táknrænn fyrir hið ósnertanlega og andlega, langanir og þrár.

Kúlan er kysst þremur kossum sem fela í sér tjáningu ástar, vináttu og þakklætis.

Kyssum hvert annað.

Gjörningaklúbburinn

Eirún, Jóní og Sigrún

 

Gjörningaklúbburinn

Gjörningaklúbburinn er skipaður listakonunum Eirúnu Sigurðardóttur, Jóní Jónsdóttur og Sigrúnu Hrólfsdóttur. Samstarf þeirra hófst í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, þaðan sem þær útskrifuðust árið 1996. Gjörningaklúbburinn á að baki mikinn fjölda sýninga og hefur hlotið verðskuldaða athygli og viðurkenningar fyrir framsækin og margræð verk sín. Hugmyndir listakvennanna tengjast gjarnan samskiptum kynja, manna og náttúru og þykja verkin hafa yfir sér glaðværð og glæsileika sem ofinn er saman við þyngri undirtón. Þeim er engin tækni eða aðferð óviðkomandi þegar þær vinna að því að koma hugmyndum sínum í viðeigandi form hvort sem um er að ræða Móður jörð, listaverk í landslaginu við Vatnsfellsvirkjun, eða heklaða búninga fyrir Voltu, plötu Bjarkar Guðmundsdóttur. Verk Gjörningaklúbbsins má finnaí helstu listasöfnum á Íslandi og víða erlendis.