Snerting - Hreinn Friðfinnsson 2009

Snerting eftir Hrein Friðfinnsson er Kærleikskúla ársins 2009. Svona lýsir hann kúlunni:

Við erum í sífellu að snerta hluti sem á vegi okkar verða. Manneskjan skilur eftir sig slóð af fingraförum í gegnum lífið. Við snertum fólk og það okkur. Snerting er notuð í lækninga- og líknarskyni. Við tökum upp hluti, réttum þá öðrum, búum til hluti, breytum hlutum. Immanuel Kant sagði að hendurnar væru hinn ytri heili mannsins.

Hreinn Friðfinnsson

Hreinn Friðfinnsson fæddist í Dölum árið 1943 en hefur búið og starfað í Amsterdam frá árinu 1971. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1958-60 og síðar erlendis, meðal annars í London og Róm. Hreinn er einn af fremstu listamönnum þjóðarinnar. Hann var hluti af hinum svokallaða SÚM-hóp, einhverri áhrifamestu hreyfingu íslenskrar myndlistar frá upphafi. Verk Hreins eru í senn ljóðræn og innileg, full af heimspekilegum vangaveltum. Verkin snúast gjarnan um eitthvað loftkennt og ósnertanlegt eins og ljósið, vindinn eða það sem ekki er. Hreinn hefur sýnt verk sín víða um heim, meðal annars nýlega í hinu virta Serpentine Gallery í London en einkasýning hans þar hlaut mikið lof og var sérlega vel sótt. Hreinn hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir list sína, má þar nefna finnsku Ars Fennica-verðlaunin (2000), önnur verðlaun Carnegie Art Award (2000) og heiðursverðlaun Myndstefs (2007) fyrir einstakt framlag sitt til íslenskrar myndlistar.