Fjarlægð - Katrín Sigurðadóttir 2010

Fjarlægð eftir Katrínu Sigurðardóttur er Kærleikskúla árins 2010. Svona lýsir Katrín verkinu:

Þegar ég horfði inn í kúluna í fyrstu, þá sá ég fyrir mér þekkt minni; lítinn heim innan í kúlunni og endamörk hans, glerið sjálft eins og sjóndeildarhring þess sem horfir innan úr miðju hans. Kúlan er alheimur í sjálfum sér, en í hönd manns er þessi litla veröld bara ögn í stærri alheimi – sem kannski er líka ögn í enn stærri alheimi, lítill viðkvæmur hlutur í hönd einhvers sem starir innan í hann.

Fjöllin sem prentuð eru á kúluna eru dregin upp af ljósmyndum sem ég tók eða safnaði af íslenskum fjöllum á árinu 2010.

 

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir er fædd í Reykjavík árið 1967 en býr og starfar í New York og Reykjavík. Hún stundaði nám við San Francisco Art Institute og Mason Gross School of the Arts í Rutgers-háskóla. Katrín er á meðal virtustu skúlptúrista okkar Íslendinga. Hún sækir hugmyndir sínar jafnan í íslenskt landslag og arkitektúr en verk hennar vekja gjarnan samhljóm meðal fólks, þar sem þau fjalla um kortlagningu ferðalaga mannsins í tíma og rúmi, í raunveruleikanum eða í huganum. Katrín hefur sýnt verk sín víða um heim og hlotið verðskuldaða athygli og viðurkenningar en nafn hennar má til að mynda finna í alþjóðlegum uppflettibókum um fremstu listakonur samtímans. Nú í haust sýnir Katrín í hinu virta Metropolitan-safni í New York, þar sem koma fyrir tvær innsetningar en þær eru hluti einkasýningaraðar safnsins þar sem nútímalistamenn á miðjum ferli eru í aðalhlutverki.