Hugvekja - Ragnar Kjartansson 2013

HUGVEKJA eftir Ragnar Kjartansson er Kærleikskúla ársins 2013.

Það var jólanótt árið 1998 og ég sat niðri í stofu með föður mínum. Aðrir voru farnir í háttinn, kertin voru að brenna upp og það rigndi ofan í jólasnjóinn. Faðir minn verður yfirleitt svolítið drukkinn á jólunum og honum finnst mikilvægt að nota hátíðleikann til að lesa syni sínum lífsreglurnar. Þessi jól var hann í sérstaklega miklu stuði. Við reyktum vindla og hann var með koníaksglas í hendinni. Skyndilega sagði hann með þungum andardrætti: Ragnar, ég þarf að segja þér eitthvað það mikilvægasta sem ég mun nokkurn tíma segja þér.“ Hann lokaði augunum og það var löng þögn. Svo sagði hann: Það er fallegt en sorglegt að vera manneskja“. Þetta hafði djúpstæð áhrif á mig. Nú prýðir þessi sanna mótsögn Kærleikskúluna.

Það er einmitt mótsögnin sem alltaf situr í mér, sérstaklega á jólunum þegar við hlustum á prestinn tala í útvarpinu, poppararnir syngja um kærleik og frið og við hugsum um stóra hluti. En lífið er aldrei annaðhvort eða – aldrei annaðhvort harmþrungið eða gleðilegt, aldrei svart eða hvítt. Við lifum og deyjum á gráa svæðinu. Þar byggjum við okkar bústað. Hlutskipti okkar, hvers og eins, er bæði sorglegt og fallegt.

Ragnar Kjartansson

Ragnar Kjartansson

Í myndlist sinni leitar Ragnar Kjartansson fanga í ólíkum listformum. Að þykjast og sviðsetja eru veigamiklir þættir í listrænni tilraun hans til að miðla tilfinningum af einlægni og veita áhorfendum ósvikna upplifun. Verk hans eru gáskafull um leið og þau eru harmræn. Ragnar hefur á síðustu árum átt mikilli velgengni að fagna og hefur skapað sér sess meðal fremstu listamanna þjóðarinnar. Verk hans hafa verið sýnd á nokkrum virtustu söfnum og hátíðum heims, svo sem Migros Museum für Gegenwartskunst, Carnegie Museum of Art og PS1 MoMA. Árið 2011 hlaut hann Malcom McLaren verðlaunin fyrir verk sitt Bliss sem flutt var á Performa 11 í New York. Tvisvar hafa verk Ragnars verið sýnd á Feneyjatvíæringnum. Árið 2009 var hann fulltrúi Íslands og fjórum árum síðar vakti verk hans S.S. Hangover verðskuldaða athygli í aðalsýningu tvíæringsins. Ragnar er fæddur í Reykjavík árið 1976. Hann stundaði nám við Listaháskóla Íslands og Konunglegu akademíuna í Stokkhólmi.