„Ákváðum að bomba í þetta og gera lagið fyrir Reykjadal“

Berglind Wöhler
Berglind Wöhler

Starfsfólk Reykjadals frumsýndi í vikunni tónlistarmyndband við frumsamið lag um Reykjadal. Lagið heitir Reykjadalurinn minn! og er eftir Ásgeir Kristján. Berglind Wöhler hafði umsjón með gerð lagsins og leikstýrði myndbandinu en hún samdi einnig textann ásamt Bjarna og Örnu Ösp en þau störfuðu öll í Reykjadal í sumar. 

Berglind segir Andreu Ósk vaktsjóra hafa komið með hugmyndina um að gera Reykjadalslag. „Það vildi bara svo heppilega til að ég var með reynslu af að gera tónlistarmyndbönd og Ásgeir var með mjög mikla reynslu af því að gera lög og Andreu vaktstjóra hefur lengi langað til að fá Reykjadalslag sem að einkennir Reykjadal,“ segir Berglind.

„Þannig að í tilefni þess að við vorum nokkur þarna með góða reynslu og hæfileika innan þessa sviðs þá ákváðum við að bomba í þetta og gera lagið fyrir Reykjadal svo gestirnir og foreldrar og allir geta séð hvað það er gaman hjá okkur og geta hlustað á þetta vonandi næstkomandi ár,“ segir Berglind.

Berglind syngur lagið ásamt Örnu Ösp, Aroni Brink, Kára og Mikael Emil, sem öll störfuðu í Reykjadal í sumar. Rewind sá um klippingu og myndatöku.