Anna Karólína Vilhjálmsdóttir er handhafi Kærleikskúlunnar 2018

Eliza Reid forsetafrú afhendir Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur framkvæmdastjóra Special Olympics á Ísl…
Eliza Reid forsetafrú afhendir Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur framkvæmdastjóra Special Olympics á Íslandi Kærleikskúluna árið 2018

  

Eliza Reid forsetafrú afhenti Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur Kærleikskúlu ársins 2018 við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum í dag. Þetta er í sextánda sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur frá sér Kærleikskúluna en allur ágóði af sölu hennar rennur til sumar – og helgarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjadal.  

 

Anna Karólína fer út fyrir venjubundnar starfslýsingar 

 

Árlega velur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra handhafa Kærleikskúlunnar í viðurkenningarskyni fyrir mikilvæg störf í þágu fatlaðra í samfélaginu. Að þessu sinni hefur stjórn Styrktarfélagsins ákveðið að veita Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur Kærleikskúluna. 

Anna Karólína hefur í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Special Olympics og þróunarsviðs Íþróttasambands fatlaðra á Íslandi unnið ötult starf í þágu fatlaðra og stutt við og eflt íþróttaiðkun þeirra. Anna Karólína  hefur farið út fyrir venjubundnar starfslýsingar og verið leiðandi í því að lögð sé áhersla á það að hlustað sé á skoðanir íþróttafólks og iðkenda. Þá hefur hún verið einkum hugmyndarík og hrint því í framkvæmd að enn fleiri tækifæri yrðu opnuð einstaklingum með hreyfihömlun á sviðinu, með því að hugsa út fyrir rammann og með því að leitast sérstaklega eftir nýjungum í tækni og í íþróttaheiminum. Þá hefur hún leitt áfram þá vinnu í að sérbúnaður yrði fenginn til landsins sem hægt er að nýta í ýmsum íþróttagreinum og í íþróttaiðkun hvers konar. 

 

Anna stýrði þá einnig sérhæfðum vinnuhópi áhugamanna um reiðmennsku og reiðþjálfun fatlaðra en í framhaldi af því varð sjúkraþjálfun á hestbaki viðurkennd innan fagsins. Þá kom hún af stað samstarfi við Challenge Aspen samtökin og Winter Park í Colorado þar sem að Ísland naut stuðnings við að efla og byggja upp vetraríþróttir fyrir fatlaða. En Anna byrjaði í því að kenna á skíði í Hlíðafjalli, sem var verkefni sem upphóf margar efasemdaraddir sem voru fljótt þaggaðar niður. Hefur hún verið hvetjandi í því að unnið sé í samvinnu við að efla íþróttaiðkun fatlaðra á Íslandi. Anna Karólína sýnir mikla jákvæðni og er drífandi og góð í að fá fólk til að vinna með sér að nýjum hugmyndum. Einlægur áhugi hennar og framtakssemi sýna vel gildin sem ríkja einnig í Reykjadal, að ekkert sé ómögulegt.  

 

Terrella eftir Elínu Hansdóttur 

 

Terrella eftir Elínu Hansdóttur er Kærleikskúla ársins 2018. Elín Hansdóttir er þekkt fyrir innsetningar sínar sem byggðar eru fyrir tiltekin rými og sem taka á sig margvíslegar myndir. Verk hennar ögra og hvetja áhorfendur til að upplifa og skynja umhverfi og rými á nýjan hátt, en þau fjalla í grundvallaratriðum um tilvist mannsins og fegurðina í óvissunni. Elín hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2017 og Guðmunduverðlaunin seinna sama ár. Elín tengir hönnun sína á Kærleikskúlunni við segulmagnið og segir meðal annars í lýsingu sinni á hönnun sinni að “Fegurðin býr í tilviljanakenndri lögun, þeim margbreytileika sem að aðdráttaraflið býður uppá og þeim áhrifum sem við getum haft á umhverfi okkar – því kærleikurinn getur með krafti sínum sameinað og umbreytt því sem kemst í tæri við segulmagn hans.”  

 

Reykjadalur  

Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna en allur ágóði rennur til starfsins í Reykjadal. Gleði, jákvæðni og ævintýri lýsa vel starfseminni í Reykjadal en þar rekur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sumar – og helgardvalarstað fyrir fötluð börn og ungmenni. Árlega koma um 250 einstaklingar í Reykjadal en þar er haft að leiðarljósi í starfseminni að ekkert sé ómögulegt. Þar er börnum og ungmennum sem þurfa sérstaka þjónustu vegna fötlunar sinnar gefið tækifæri til að njóta sumardvalar og skapa ógleymanlegar minningar. Mikið er lagt upp úr því að börnin njóti dvalarinnar til hins ýtrasta, á sínum eigin forsendum og skemmti sér í hópi jafnaldra. 

 
Sala Kærleikskúlunnar stendur yfir frá 5. - 19. desember. 


Hér má sjá nokkrar myndir frá athöfninni

Elín Hansdóttir listamaður Kærleikskúlunnar 2018  Terrella 2018

 

Biskup Íslands blessar kúluna Anna Karólína Vilhjálmsdóttir handhafi 2018

 

Eliza Reid forsetafrú  Forsöngur frá Lyrika

Bjöllukór tónstofu Valgerðar Afhending Kærleikskúlunnar 2018

 

Afhending Kærleikskúlunnar 2018