Hefur hlaupið yfir tuttugu sinnum í Reykjavíkurmaraþoninu í minningu sonar síns

Jónína Ómarsdóttir ætlar að hlaupa hálft maraþon um helgina en hún safnar áheitum til styrktar Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra í minningu sonar síns.

Jónína hefur tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu yfir tuttugu sinnum og hefur alltaf safnað áheitum fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. „Ég ætla að hlaupa fyrir styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og heiðra minningu Ara sonar míns sem fékk aldrei tækifæri til að hlaupa og leika sér eða vaxa og dafna því hann fæddist með klofinn hrygg og dó þriggja daga gamall,“ skrifar Jónína á hlapastyrkur.is.

Jónína hljóp sitt fyrsta hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir tæpum þremur áratugum. Hún er í Heiðursklúbbi Reykjavíkurmaraþonsins en þangað komast þau sem hafa hlaupið tíu eða fleiri maraþon og/eða hálfmaraþon. Jónína missti son sinn árið 1983 og hefur styrkt Styrktarfélagið í hans minningu síðan. „Þessi sára lífsreynsla gerði mig að betri manneskju og meðan fæturnir bera mig ætla ég að leggja mitt af mörkum og hlaupa til góðs fyrir Ara og alla þá sem geta ekki hlaupið. Jafnvel þótt ég geti ekki hlaupið hratt því ég er að ná mér eftir ökklabrot þá mun ég skokka með gleði í hjarta og bros á vör,“ skrifar Jónína.

Þetta er í níunda sinn sem Jónína hleypur hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu en hún hefur sjö sinnum hlaupið heilt maraþon. Jónína hefur einnig hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoni og tekið þátt í mörgum öðrum götuhlaupum.

Reykjavíkurmaraþoninu hefur verið aflýst en Jónína ætlar samt sem áður að hlaupa sína leið. Hægt er að heita á hana á hér: https://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=78291