Komu Friðriki á óvart og færðu honum fyrstu Kærleikskúluna

Steinunn Ása, Ásgeir, Elva, Friðrik, Magnús, Hörður, Katrín og Andri Freyr
Steinunn Ása, Ásgeir, Elva, Friðrik, Magnús, Hörður, Katrín og Andri Freyr

Friðrik Sigurðsson er handhafi Kærleikskúlunnar 2020. Hann er frumkvöðull í réttindabaráttu fatlaðs fólks og hefur í raun helgað líf sitt réttindabaráttunni. Liðsfélagar sjónvarpsþáttanna Með okkar augum komu Friðriki á óvart og afhentu honum fyrstu Kærleikskúluna ársins fyrir utan vinnustað hans. Kærleikskúlan verður svo frumsýnd í Vikunni hjá Gísla Marteini í kvöld og hulunni svipt af því hvaða listamaður skapaði Kærleikskúlu ársins.

Árlega velur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra handhafa Kærleikskúlunnar. Hún er veitt framúrskarandi fyrirmynd fyrir störf í þágu fólks með fötlun. Friðrik Sigurðsson er þroskaþjálfi og starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.  Hann er einn af stofnendum hátíðarinnar List án landamæra og verndari hennar. Hann stóð einnig að stofnun Átaks, félags fólks með þroskahömlun og er heiðursfélagi í samtökunum. Friðrik átti líka hugmyndina að skemmtiþáttunum Með okkar augum. Hann kom einnig að stofnun sendiherra um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Svona mætti lengi telja. Friðrik er ötull baráttumaður og frumkvöðull í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Hann hefur aldrei hætt baráttunni og er enn fullur af eldmóð og er sannarlega verðugur handhafi Kærleikskúlunnar.

Ævintýri og ógleymanlegar minningar í Reykjadal

Sala Kærleikskúlunnar skipar stóran sess í fjáröflunarstarfi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Þetta er í átjánda sinn sem félagið gefur út Kærleikskúluna en margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar hafa lagt félaginu lið með því að skapa listaverk á glerkúluna.

Kærleikskúlan 2020 kemur í verslanir um land allt fimmtudaginn 3. Desember. Söluaðilar kúlunnar taka enga þóknun fyrir söluna. Því rennur allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar óskiptur til sumarbúðanna í Reykjadal. Þangað koma fötluð börn og ungmenni alls staðar að af landinu. Dvölin börnunum og fjölskyldum þeirra afar mikilvæg en mikið er lagt upp úr því að skapa ævintýri og ógleymanlegar minningar hjá þeim gestum sem þar dvelja.

Fjölbreytt safn listaverka

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hóf útgáfu Kærleikskúlunnar árið 2003 og er SÓL ÉG SÁ því sautjánda kúlan. Úr er orðið fjölbreytt safn listaverka eftir marga af okkar þekktustu listamönnum. Fyrri listamenn Kærleikskúlunnar eru Erró, Ólafur Elíasson, Rúrí, Gabríela Friðriksdóttir, Eggert Pétursson, Gjörningaklúbburinn, Hreinn Friðfinnsson, Katrín Sigurðardóttir, Yoko Ono, Hrafnhildur Arnardóttir, Ragnar Kjartansson, Davíð Örn Halldórsson, Ragna Róbertsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Egill Sæbjörnsson og Elín Hansdóttir. Hægt er að nálgast eldri Kærleikskúlur í netversluninni: www.kaerleikskulan.is