Már Gunnarsson er handhafi Kærleikskúlunnar 2019

Nína Kristín Sigurbjörnsdóttir afhenti Má Kærleikskúluna en systir hennar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdó…
Nína Kristín Sigurbjörnsdóttir afhenti Má Kærleikskúluna en systir hennar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra var kynnir á athöfninni.

Már Gunnarsson sundkappi og tónlistarmaður er handhafi Kærleikskúlunnar 2019. Már er framúrskarandi fyrirmynd og hefur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra ákveðið að veita honum Kærleikskúluna í ár. Ólöf Nordal listakona gerir Kærleikskúluna sem heitir SÓL ÉG SÁ. Allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar rennur til Reykjadals, sumar- og helgarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni.

Blindan engin hindrun

Árlega velur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra handhafa Kærleikskúlunnar. Hún er veitt framúrskarandi fyrirmynd fyrir störf í þágu fólks með fötlun. Már Gunnarsson er tvítugur afreksmaður í sundi og tónlistarmaður. Það er álit stjórnar Styrktarfélagsins að Már sé einstök fyrirmynd. Hann er blindur en lætur það ekki hindra sig í að ná markmiðum sínum. Þrátt fyrir ungan aldur er Már afreksíþróttamaður og margfaldur Íslandsmethafi í baksundi í fötlunarflokki S11, flokki blindra. Már sló tíu Íslandsmet á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi í september auk þess sem hann vann til bronsverðlauna í 100 metra baksundi. Þá náði hann framúrskarandi árangri á íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í 25 metra laug en hann var þrisvar á tíma sem er undir núgildandi heimsmeti. Már setur markið hátt, hann stefnir á að komast á Ólympíumót fatlaðra í Tókýó árið 2020 og ætlar sér að vinna til gullverðlauna í 100 metra baksundi. Már er einnig tónlistamaður. Nýverið sópaði hann að sér viðurkenningum á Söngvakeppni Lionsklúbbsins fyrir blinda sem haldin var í Póllandi. Már var í þriðja sæti í keppninni en hann sló í gegn meðal áheyrenda og var valinn vinsælasti keppandinn. Að auki fékk hann verðlaun frá Félagi fréttamanna í Póllandi. Már er ekki bara einstök fyrirmynd fyrir íþróttmenn með fötlun, heldur er jákvæðni hans og staðfesta eftirtektaverð og eitthvað sem allir geta tileinkað sér.