Stoðkerfismóttökur

Samráð um meðferðarúrræði

Móttökurnar eru vettvangur samráðs og ákvörðunartöku um sérhæfða meðferð sem beinist að hreyfi- og stoðkerfi barna og ungmenna með hreyfihömlun. Megintilgangurinn er að fylgjast markvisst með líkamlegu ástandi og meta þörf fyrir að grípa inní, til dæmis með notkun stoðtækja, lyfjagjafar eða skurðaðgerða.

Markmið með móttöku er stuðla að:

  • Samráði barns, foreldra og þeirra fagaðila sem koma að meðferð
  • Reglubundnu eftirliti á heilsu og færni til að fyrirbyggja álagseinkenni og kreppur
  • Kerfisbundnu mati á árangri meðferða
  • Ráðgjöf og fræðslu

Vönduð og upplýst ákvörðunartaka

Til að vega og meta hvaða þjónusta og meðferð á best við á hverjum tíma þarf fyrst og fremst að huga að færni barnsins og þeim markmiðum sem unnið er að.

Mikilvægt er að skoða vel hvaða valmöguleikar eru fyrir hendi og hvaða kosti og galla þeir hafa í för með sér. Hér er fyrst og fremst átt við þjálfun, stoð- og hjálpartæki (t.d. spelkur og skór), lyfjagjöf (t.d.botox og baclofen) og skurðaðgerðir (t.d. sinalengingar).

Einnig skiptir máli að meta hverju meðferð hefur skilað til að geta tekið ákvörðun um næstu skref.

Hvernig fer stoðkerfismóttaka fram?

Á móttökum gefst barni og foreldrum kostur á að hitta sérfræðing í bæklunarskurðlækningum ásamt öðrum fagaðilum sem fjölskyldan óskar eftir. Oftast eru það sjúkraþjálfari og/eða iðjuþjálfi barnsins og stoðtækjafræðingur. Í sumum tilfellum er einnig óskað eftir samvinnu við starfsfólk í skóla eða leikskóla.

Móttakan beinist að eftirliti og úrlausnarefnum sem hafa áhrif á færni og lífsgæði barnsins og fjölskyldunnar. Barnið er skoðað og rætt er um hvort grípa eigi inní og þá hvernig. Viðfangsefnin eru afar mismunandi en geta til dæmis tengst:

  • Göngufærni
  • Setstöðu
  • Verkjum
  • Skekkjum í liðum
  • Þörf fyrir meðhöndlun á aukinni vöðvaspennu

Móttakan fer fram á Æfingastöðinni, annan hvern fimmtudag eftir hádegi yfir vetrartímann. Hver móttaka tekur um 30 mínútur. Gott er að mæta með stuttbuxur þegar það á við.

Guðbjörg Eggertsdóttir sjúkraþjálfari hefur umsjón með móttökum og sér um skipulagningu, skráningu og eftirfylgd. Þjálfarar barnsins á Æfingastöðinni hafa milligöngu um tímapantanir.

Nánari upplýsingar gefur Guðbjörg í síma 535 0900 eða gudbjorg@slf.is