Karfan er tóm.
1.1. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð árið 1952. Heiti félagsins er skammstafað SLF.
Heimili félagsins, aðalstarfstöð og varnarþing er að Háaleitisbraut 13 í Reykjavík.
2.1. Tilgangur félagsins er að greiða fyrir fötluðu fólki, einkum börnum, á hvern hátt sem félagið hefur tök á og stuðlað getur að aukinni orku, starfshæfni og velferð þeirra.
3.1. Stofnfé félagsins er kr. 215.264.391 - þar af eru kr. 10.000.000 - óskerðanlegt stofnfé. Stofnféð samanstendur af frjálsu eigin fé félagsins í árslok 2003 samkvæmt ársreikningi. Eigið fé félagsins hefur orðið til með framlögum frá einstaklingum, félögum og sértekjum félagsins.
Stofnfé sem er tilkomið með framlögum frá einstaklingum og félögum er óendurkræft framlag til félagsins.
4.1. Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra félagsfunda félagsins.
4.2. Aðalfund skal halda eigi síðar en 15. maí ár hvert. Hann skal boða með viku fyrirvara með auglýsingu í dagblöðum og í útvarpi.
Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir félagsmenn sem skráðir eru samkvæmt félagaskrá og skuldlausir í lok síðasta árs.
4.3. Aukafundi skal halda eftir ákvörðun: Framkvæmdaráðs, stjórnar eða ef minnst 10 félagsmenn óska þess. Skal krafan skriflega gerð og fundarefni tilgreint og fundur boðaður þá innan fjórtán daga með auglýsingu í dagblöðum og útvarpi.
4.4. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
a) Skýrsla stjórnar félagsins um starfsemina á liðnu ári.
b) Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár ásamt skýrslu endurskoðanda skal lagður fram til staðfestingar.
c) Ákvörðun um árgjöld félagsmanna.
d) Kosning fulltrúa í Framkvæmdaráð.
e) Kosning endurskoðanda.
f) Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.
4.5. Fundargerðarbók skal haldin og í hana skráð það sem gerist á fundum félagsins.
5.1. Æðsta vald í málefnum félagsins milli félagsfunda er í höndum Framkvæmdaráðs.
Í Framkvæmdaráði eiga sæti 15 fulltrúar sem kosnir eru á aðalfundi til þriggja ára, þannig að árlega ganga úr Framkvæmdaráði 5 fulltrúar. Tillögur um fulltrúa í Framkvæmdaráð skulu berast framkvæmdastjórn félagsins eigi síðar en sjö dögum fyrir aðalfund. Kjörgengi í Framkvæmdaráð hafa þeir félagsmenn sem skráðir eru og skuldlausir í lok síðasta árs.
5.2. Fráfarandi formaður félagsins skal boða til fundar nýkjörins Framkvæmdaráðs innan fjórtán daga frá aðalfundi og stjórnar þar kosningu formanns fyrir næsta starfsár. Síðan skal á fundinum kjósa varaformann, ritara og tvo meðstjórnendur úr hópi félagsmanna og skipa þeir fimm manna framkvæmdarstjórn fyrir næsta starfsár. Hætti einhver störfum í stjórn eða Framkvæmdaráði skipar Framkvæmdaráð fulltrúa í hans stað enda séu 2/3 ráðsmanna mættir.
Framkvæmdastjórn heldur fundi reglulega, að lágmarki 8 fundi á ári og boðar til funda í Framkvæmdaráði og undirbýr þá. Framkvæmdastjórn hefur umsjón með starfi nefnda sem skipaðar eru á hverjum tíma, svo og öll önnur störf er undir slíka stjórn heyra samkvæmt viðteknum venjum.
Formaður og tveir meðstjórnendur skuldbinda félagið.
Framkvæmdastjórn skal halda fundargerðarbók þar sem skráðar eru allar ákvarðanir stjórnar og annað það sem gerist á stjórnarfundum og fundum Framkvæmdaráðs.
Framkvæmdastjórn getur falið einstökum meðlimum störf í þágu félagsins og greitt fyrir þau ef þörf krefur. Einnig getur hún skipað sérstakar nefndir áhugafólks til að sjá um afmörkuð verkefni á sviði fjáröflunar eða framkvæmda.
5.3. Framkvæmdastjórn er heimilt að ráða Framkvæmdastjóra og gera við hann ráðningarsamning. Framkvæmdastjórn veitir og prókúruumboð fyrir félagið. Framkvæmdastjóri getur ekki verið í stjórn eða formaður félagsins.
Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins þar með talið fjármál og reikningshald og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða daglegan rekstur. Framkvæmdastjóri sér um ráðningu starfsfólks en skal hafa samráð við formann um ráðningu lykilstarfsmanna. Framkvæmdastjóra ber að veita framkvæmdastjórn og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.
Framkvæmdastjóri, ásamt framkvæmdastjórn, skal sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.
6.1. Á aðalfundi félagsins skal kjósa löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til eins árs í senn.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Ársreikningur félagsins skal fjölritaður í hæfilega mörgum eintökum sem liggja skulu frammi á skrifstofu félagsins minnst eina viku fyrir aðalfund.
7.1. Skipulagsskrá þessari má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 fundarmanna, enda hafi breytingartillögur verið lagðar fyrir fund í Framkvæmdaráði og þeirra getið í fundarboði til aðalfundar.
8.1. Tillögu um slit félagsins eða gjöf eða sölu fasteigna sem tengdar eru starfsemi þess ber að ræða í Framkvæmdaráði. Nái hún samþykki þar skal hún borin undir aðalfund og efni hennar tilkynnt í fundarboði til hans. Til fullgildingar á aðalfundi þarf samþykki 2/3 fundarmanna.
8.2. Leysist félagið upp eða verði óstarfhæft, skal Heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytið ásamt Félagsmálaráðuneytinu ráðstafa eignum félagsins í samræmi við yfirlýstan tilgang félagsins sbr. grein 2.1 í samþykktum þessum.
8.3. Með skipulagsskrá þessari eru fallin úr gildi lög félagsins frá 17. mars 1978, með áorðnum breytingum.
Samþykkt á aðalfundi 11. maí 2005.
Skipulagskrá þessi tekur gildi við undirritun félagsmanna á aðalfundi
Þórir Þorvarðarson Auðbjörg Steinbach
Helga Jóhannsdóttir Eva Þengilsdóttir
Edda Björnsdóttir Elínborg S. Kjærnested
Björg Stefánsdóttir Sturla Þengilsson
Gerður Gústavsdóttir Haukur Þórðarson
Svava Árnadóttir Vilmundur Gíslason
Áslaug Jónsdóttir Jónína Guðmundsdóttir
Margrét Þórisdóttir Áslaug Guðmundsdóttir