Fyrir foreldra/aðstandendur

Reykjadalur

Árlega dvelja um 250 börn í sumarbúðunum í Reykjadal. Þau koma alls staðar að af landinu.

Frá maílokum fram í miðjan ágúst er boðið upp á sumardvöl og yfir vetrarmánuðina er boðið upp á helgardvöl. Hvert barn getur dvalið í sex daga eða þrettán daga yfir sumartímann og eina til tvær helgar yfir vetrartímann.

Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt og vega þar leikir og ýmiskonar útivera þungt. Sundlaug er á staðnum ásamt heitum potti og njóta gestirnir þess mjög að svamla um í heitu vatninu.    

Hverjir geta sótt um dvöl?

Allir einstaklingar með fötlun, á aldrinum 8-21 árs geta sóst eftir dvöl hvort sem um ræðir sumar –eða vetrardvöl. Reykjadalur er mjög þétt setinn og ekki er alltaf hægt að koma öllum að en afar mismunandi er hvaða hópar fyllast hverju sinni. Við hvetjum hins vegar alla til að sækja um fyrir börn sín og ungmenni ef þau hafa áhuga á að nýta sér þennan frábæra stað.

 

Hverjir starfa í Reykjadal?

Reykjadalur hefur í gegnum tíðina lagt mikinn metnað í að ráða hæft og drífandi starfsfólk. Starfsfólk Reykjadals er á aldrinum 18-29 ára. Flestir eru í háskólanámi. Ástæða þess að í Reykjadal starfar ungt námsfólk er sú að við viljum að staðurinn sé fullur af orku og lífsgleði. Við teljum að unga fólkið sé tilbúið til þess að leggja allt á sig til að gleðja gestina sem hjá okkur dvelja. 

 

Hvernig þjálfun/undirbúning fær starfsfólkið?

Starfsfólki Reykjadals er ekki kastað út í djúpu laugina og ætlast til að þeir bjargi sér í jafn ábyrgðarfullri vinnu. Áður en starfsemin hefst eru allir starfsmenn skyldugir til að sitja þriggja daga námskeið þar sem þeim er veitt grundvallarfræðsla um ýmislegt sem snertir starfið.

Forstöðumaður Reykjadals sér um námskeiðin með aðstoð ýmissa gestafyrirlesara. Á námskeiðunum er farið yfir öll helstu frávik, kennd eru grundvallaratriði í samskiptum við gesti, foreldra og samstarfsfólk, farið er yfir almenn atriði sem snerta daglegt starf eins og matartíma, hvíld og aðstoð við daglegar athafnir. Kennd er skyndihjálp, viðbrögð við krömpum, auk þess sem kennt er á sondur og hjálpartæki. Ýmsir gestafyrirlesarar koma og fara yfir mikilvægi góðra samskipta við foreldra sem við teljum vera mjög mikilvægan þátt, einnig eru starfsmenn fræddir um hvernig gott er að takast á við það álag sem starfinu getur fylgt.

Allir starfsmenn fá handbók sem inniheldur öll helstu atriði sem snúa að starfinu. Gerð er krafa til þeirra að lesa og tileinka sér handbókina.

Starfsmenn sitja morgunfund í hálftíma á hverjum degi og þar fer forstöðumaður yfir ýmis atriði er snerta gesti staðarins. Farið er í gegnum umsóknir gesta, starfsmenn eru fræddir um þau atriði sem hafa ber í huga með tilliti til þess hóps sem á staðnum dvelur og margt fleira. Á hverjum fundi skiptast starfsmenn svo á að vera með upprifjun og hrós dagsins. Við teljum okkur vera að veita starfsmönnunum fræðslu á hverjum degi sem gerir það að verkum að þeir þroskast og vaxa í starfi frá einum degi til annars. Starfsmennirnir hafa alltaf aðgang að forstöðumanni og vaktstjórum ef einhverjar spurningar vakna eða ef þeir eru óöryggir með eitthvað.

Mikil áhersla er lögð á að starfsmenn sýni sjálfstæð vinnubrögð en á sama tíma ber þeim að vinna eftir ákveðnum ramma. Áður en starfið hefst er búið að móta dagsskrá fyrir hvern einasta dag sumarsins. Dagskráin gefur starfsmönnunum hins vegar færi á því að nota hugmyndaflugið og það er markmið staðarins að kenna starfsmönnunum að leggja sig alltaf alla fram, fullkomna þannig dvöl gestanna svo þeir nái því besta fram í sjálfum sér. Dagarnir verða því alltaf eins skemmtilegir og starfsfólkið vill hafa þá, því það er það sem sér til þess að frumþörfum allra sé sinnt og að allir fari að sofa með bros á vör. Það er okkar markmið að allir sem fara heim úr Reykjadal fari með bros á vör og með góðar minningar.

 

Dagbókin

Allir dvalargestir fara heim með einskonar minningabók eða dagbók eins og við köllum hana. Starfsmaður eða gesturinn sjálfur skráir í dagbók á hverjum degi allt það skemmtilega sem gerðist yfir daginn. Dagbókin er síðan skreytt með þeim myndum sem hafa verið teknar, auk listaverka og fleira sem viðkomandi gestur hefur dundað sér við að búa til.

Markmið dagbókarinnar er að leyfa foreldrum að sjá og upplifa með barni sínu það sem barnið var að aðhafast í þann tíma sem það dvaldi hjá okkur. Auk þess erum við að stuðla að því að minningin endist sem lengst og berist með heim til fjölskyldunnar.

 

Fleiri algengar spurningar