- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Á Æfingastöðinni fá börn og ungmenni hæfingu og endurhæfingu. Markmiðið er ávallt að efla þátttöku barnsins í daglegu lífi og auka þannig lífsgæði þess og fjölskyldunnar.
Sjúkraþjálfarar aðstoða barnið við að bæta, viðhalda og nýta líkamlega færni sína svo að það eigi auðveldara með að taka þátt í leik og starfi og vera sjálfbjarga.
Iðjuþjálfar aðstoða barnið við að ná færni í daglegum athöfnum og störfum svo sem að klæða sig, þvo sér og snyrta, borða, leika, læra og iðka tómstundir.
Til þess að sækja iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun á Æfingastöðinni þarf að hafa beiðni frá lækni. Nánar um þjónustuferlið hér.
Þau úrræði sem eru í boði í sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun eru af margvíslegum toga. Þau geta verið í formi þjálfunar, ráðgjafar og/eða útvegun stoð- og hjálpartækja. Boðið er upp á einstaklingsþjálfun og fjölbreytta hópþjálfun ásamt æfingum í sundlaug. Einnig starfa hjá okkur þjálfarar með sérhæfða menntun í notkun dýra við meðferðir. Guðbjörg Eggertsdóttir sjúkraþjálfari býður upp á sjúkraþjálfun á hestbaki og Gunnhildur Jakobsdóttir iðjuþjálfi býður upp á meðferðir í iðjuþjálfun með hundi.
Þjónustan fer fram á Æfingastöðinni eða í nánasta umhverfi barnsins, svo sem í leikskólanum, skólanum eða á heimili barnsins.
Æfingastöðin sinnir einnig ákveðnum hópi fullorðinna einstaklinga, svo sem þeim sem hafa verið hreyfihamlaðir frá barnæsku. Þá er boðið upp á þjálfun fyrir fólk með Parkinson.