Hópþjálfun og námskeið

Æfingastöðin leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt námskeið og hópþjálfun sem stýrt er af iðjuþjálfum og sjúkraþjálfurum.

Á námskeiðunum fá börnin tækifæri til að vera hluti af hóp og er hópþjálfunin því kjörin leið fyrir börn og ungmenni að æfa sig í félagslegum samskiptum og um leið að þjálfa hreyfifærni sína. 

Meginmarkmið er að efla færni barnsins og stuðla að íþrótta- og tómstundaiðkun þess. Í flestum tilfellum hafa börnin verið í einstaklingsþjálfun áður en þeim er vísað í hóp sem hæfir þeirra þörfum.

Í hópþjálfun er haft að leiðarljósi að:

  • Vera jákvæð
  • Taka þátt
  • Vera góð við hvert annað
  • Hafa gaman

Til að eiga kost á að sækja um námskeið eða hópþjálfun á Æfingastöðinni þarf læknir að skrifa beiðni um þjálfun fyrir viðkomandi. Barnið fær tengsl við iðjuþjálfa og/eða sjúkraþjálfara á Æfingastöðinni sem í samvinnu foreldra og barns finna og sækja um viðeigandi námskeið/hóp. Nánar um þjónustuferlið hér.

Eftirfarandi námskeið/hópar eru að jafnaði í boði (smelltu á heiti hópsins til að lesa nánar um hann):

Hópar fyrir börn og ungmenni með frávik í hreyfingum

Hvolpar og kisur: Færniþjálfun í hóp fyrir börn á leikskólaaldri (3-6 ára) með frávik í hreyfiþroska.

Ormaskopp: Hópþjálfun fyrir börn á leikskólaaldri (4-6 ára) sem þurfa hvatningu, aukið sjálfstraust og betri líkamlega færni til að taka þátt í hreyfileikjum með jafnöldrum.

Skólahópur: Námskeið fyrir börn á síðasta ári í leikskóla (5-6 ára) sem eru með frávik í fínhreyfi- og/eða félagsfærni. Lögð er áhersla á undirbúning fyrir skólagöngu þar sem þau fá hvatningu og þjálfun til að auka færni meðal jafnaldra.

Íþróttahópur: Hópþjálfun fyrir börn í fyrstu bekkjum grunnskóla (6-8 ára) sem þurfa hvatningu, aukið sjálfstraust og betri líkamlega og félagslega færni til að taka þátt í leik og tómstundum með jafnöldrum.

Hreyfihvöt: Hópþjálfun fyrir krakka (8-11 ára) sem þurfa að auka líkamlega færni og áhuga á hreyfingu.

Líkamsrækt: Hópþjálfun fyrir börn og unglinga 11-14 ára sem þurfa á styrktar-, úthaldsog liðleikaþjálfun að halda.

Skotgröfin: Hópþjálfun fyrir stráka á aldrinum 11-14 ára sem vilja æfa styrk og úthald.

Fótboltahópur: Hópþjálfun fyrir börn (4-12 ára) sem þurfa hvatningu, aukið sjálfstraust og betri líkamlega færni til að taka þátt í hreyfileikjum með jafnöldrum, með áherslu á fótboltafærni.

Hópar fyrir börn og ungmenni með hreyfi- og/eða þroskahömlun

Kópar: Hópþjálfun í sundlaug fyrir börn á leikskólaaldri, með seinkun á hreyfiþroska, sem hafa þörf fyrir að bæta sjálfsöryggi og færni í vatni.

Svamlarar: Þjálfun í hóp í sundlaug. Ætluð börnum frá 0-6 ára sem eru með þroskaskerðingu og/eða hreyfihömlun.

Útivist og fjör: Tveggja vikna sumarnámskeið fyrir börn á aldrinum 8-11 sem eru með frávik í félagsfærni og þurfa hvatningu og þjálfun til að öðlast færni í samskiptum  og leik við jafnaldra sína.

Húnar: Þjálfun í hóp fyrir börn á leikskólaaldri (3-6 ára)  með verulega hreyfi- og/eða þroskahömlun. 

Gormar: Hópþjálfun fyrir krakka með hreyfihömlun sem eru á grunnskólaaldri (6-10 ára) og vilja æfa saman og hafa gaman í hóp með öðrum krökkum.

Líkamsrækt fyrir nema í framhaldsskóla: Hópþjálfun fyrir framhalds-skólanema á starfsbraut sem þurfa á styrktar-, úthalds og liðleikaþjálfun að halda.

Hópar fyrir börn og ungmenni með frávik í félagsfærni

Félagar: Námskeið fyrir börn á grunnskólaaldri (7-12 ára) sem eru með frávik í fínhreyfi og/eða félagsfærni og þurfa hvatningu og þjálfun til að auka færni meðal jafnaldra.

PEERS® námskeið - Félagsfærniþjálfun fyrir unglinga:PEERS er 14 vikna gagnreynt félagsfærninámskeið fyrir unglinga sem vilja og hafa áhuga á að læra nýjar leiðir til að eignast og viðhalda vinum. 

Útivist og fjör: Tveggja vikna sumarnámskeið fyrir börn á aldrinum 8-11 ára sem eru með frávik í félagsfærni og þurfa hvatningu og þjálfun til að öðlast færni í samskiptum  og leik við jafnaldra sína.