Karfan er tóm.
Árið 1959 hóf Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rekstur sumarbúða fyrir fötluð börn. Var starfsemin í Reykjaskóla í Hrútafirði og Varmalandi í Borgarfirði, en árið 1963 festi félagið kaup á Reykjadal í Mosfellsdal sem framtíðarstað fyrir þessa starfsemi.
Á upphafsárunum komu bæði fötluð og ófötluð börn til sumardvalar í Reykjadal. Til að byrja með, var Reykjadalur aðeins starfræktur að sumarlagi, en árið 1990 hófst regluleg starfsemi að vetrarlagi um helgar. Sumarið 1973 urðu straumhvörf í starfsemi Reykjadals þegar ríkið ákvað að styrkja starfsemina sem nam umönnun 30 barna. Ófötluð börn hættu þá að koma í Reykjadal og hvert barn fékk þar af leiðandi aukna umönnun og athygli. Mikil breyting hefur orðið á sumarstarfseminni og í dag koma 200 börn og ungmenni á hverju sumri í flest í tvær vikur í senn.
Haustið 1969 hófst rekstur heimavistarskóla fyrir fötluð börn í Reykjadal. Skólinn mætti þörfum mikið fatlaðra barna sem ekki gátu með góðu móti stundað sinn hverfisskóla. Árið 1975 var skólakerfið loks reiðubúið að taka við þessum nemendum þegar stofnuð var sérdeild fyrir fötluð börn í Hlíðaskóla í Reykjavík.
Sundlaug var tekin í notkun vorið 1965, en sund og leikur í vatni hefur alla tíð verið mikilvægur þáttur í starfsemi sumarbúðanna. Ný sundlaug var tekin í notkun árið 1994 og var hún mikil lyftistöng fyrir staðinn, en söfnun fyrir henni hafði staðið yfir frá árinu 1989.
Kvennadeild SLF, sem nú er hætt starfsemi, var alla tíð öflug við söfnun fjár til starfseminnar og telja má víst að án hennar hefði Reykjadalur aldrei blómstrað eins og raun varð á. Þáttur félaga í Kiwanisklúbbnum Viðey í Reykjavík er jafnframt lofsverður, en stærsta verkefni klúbbsins var söfnun fyrir byggingu nýrrar sundlaugar í Reykjadal. Leitað var til landsmanna og tókst að safna nær tveimur þriðju hlutum þess fjár sem kostaði að byggja sundlaugina.