Sumarfrí Reykjadals fyrir fullorðið fólk

Í Reykjadal koma börn og ungmenni á aldrinum 8-21 árs. Mörg vilja halda áfram að koma í Reykjadal þrátt fyrir að hafa náð 21 árs aldri. Það er alltaf jafn leitt að kveðja og geta ekki haldið áfram að bjóða þeim að koma í Reykjadal sem það vilja.

Okkur hafði lengi dreymt um að vera með einhverskonar valkost fyrir fólk 21 árs og eldri sem vill halda áfram að koma í Reykjadal. Síðasta sumar fengum við tækifæri til að láta þennan draum rætast en verkefnið fékk nafnið „Sumarfrí Reykjadals“ og var unnið að frumkvæði félagamálaráðuneytisins sem viðbrögð við félagslegum áhrifum Covid- 19 faraldursins. Þá stóð fólki með fötlun á aldrinum 21-35 ára til boða að koma í sumarfrí á Hóteli í Grindavík og var mikil ánægja með verkefnið.

Aftur höfum við fengið tækifæri til að bjóða fólki upp á sumarfrí Reykjadals og er miðað við aldurshópinn 21-40 ára með stuðningi frá félagsmálaráðuneytinu. Í þetta sinn verður dvölin á Hótel Heklu. Við viljum bjóða fólki sem kom í Reykjadal í æsku að upplifa aftur Reykjadalssteminguna, ógleymanlegar kvöldvökur, gleði og vináttu. Þau sem ekki hafa komið í Reykjadal áður eru auðvitað líka velkomin. Búið er að opna fyrir umsóknir.

 

Sæktu um dvöl hér