Velunnarar

Reykjadalur hefur notið  mikillar velvildar í gegnum tíðina, fjöldi fólks hefur gefið vinnu sína eða lagt til fé til að gleðja gesti Reykjadals. Félagasamtök og fyrirtæki hafa átt ríkan þátt í uppbyggingu staðarins og því hve starfið hefur verið öflugt.

 

Fyrirtæki og einstaklingar hafa stutt við starfsemi Reykjadals með ýmsum hætti þar á meðal með kaupum á Kærleikskúlunni en allur ágóði af sölu hennar rennur í starfssemina.

 

Össur hefur stutt starfsemina með því að gerast vina-fyrirtæki Reykjadals. Starfsmenn Össurar hafa aðstoðað okkur við uppbyggingu og viðhald sem og með fjárframlögum í formi styrkja til tækjakaupa. Vinátta sem þessi er okkur í Reykjadal ómetanleg og er okkur mikils virði að geta leitað til Össurar með hin ýmsu málefni.

 

Ýmsar Oddfellow stúkur hafa lagt okkur lið með vinnuframlagi og styrkjaframlagi. Meðlimir Oddfellow hafa komið í Reykjadal og átt heilu vinnudagana, þar sem unnið er að viðhaldi. Þá studdi Oddfellowstúkan Hallveig Reykjadal með myndarlegum hætti en þeir hafa unnið þar að endurbótum. Útkoman er glæsileg en til að mynda er búið að stækka matsal, breyta sturtuaðstöðu í herbergi og endurbæta starfsmannaaðstöðu og þvottahús.

 

Lionsklúbburinn Týr og Lionsklúbburinn Mosfell hafa stutt okkur dyggilega á hverju ári. Meðlimir klúbbanna hafa komið í Reykjadal og sett saman ýmis tæki og tól, unnið í viðhaldi og styrkt okkur með tækjakaupum.

 

Klúbbar innan Kiwanishreyfingarinnar, eins og Kiwanisklúbburinn Viðey og Kiwanisklúbburinn Mosfell hafa stutt dyggilega við bakið á starfsemi Reykjadals í gegnum tíðina. Þar hafa Kiwanismenn málað, lagt pípulagnir, gert við gólf og hellulagt. Stærsta verkefnið var söfnun fyrir byggingu nýrrar sundlaugar í Reykjadal og tókst þeim að safna nær tveimur þriðju hlutum þess fjár sem kostaði að byggja sundlaugina. Þá gáfu þeir færanlega lyftu sem nýtist hreyfihömluðum mjög vel auk þess að þeir gáfu þrjú garðhýsi sem ætluð eru til að þjóna börnunum í Reykjadal í leik.  

 

Háskóli Íslands stóð fyrir söfnunarátakinu Upplifun fyrir alla þar söfnuðust rúmar 16 milljónir. Markmið söfnunarinnar var að tryggja upplifun fyrir alla og minnka biðlista í Reykjadal en nú er um tveggja ára biðlisti.

 

Kids Parilament góðgerðarsamtök Hendrikku Waage hafa stutt veglega við starfsemi Reykjadals. Nýlega var sett upp skynörvunarherbergi sem kostað var af fé sem safnaðist á góðgerðarhádegisverði sem Hendrikka Waage stóð fyrir í samstarfi við konur úr FKA.

 

Orkan er góður bakhjarl sem styrkir Reykjadal með bensínlyklum. Við notkun á bensínlyklunum er starfsemi Reykjadals studd.

 

Hagar hafa styrkt Reykjadal með stórum fjárframlögum sem hafa nýst vel við rekstur staðarins.

 

Ýmis fyrirtæki hafa komið á vorin og átt vinnudaga þar sem starfsmenn fyrirtækjanna gefa vinnuframlag sitt í allskyns tiltekt og viðhald á staðnum. Starfsmenn fyrirtækjanna hafa veitt ómetanlega aðstoð við undirbúning á sumardvölinni. Íslandsbanki, Actavis og Sabre hafa til að mynda stutt Reykjadal með þessum hætti.