500 taka þátt í sumarverkefnum Reykjadals og enginn þarf að bíða lengur en ár

Kát að lokinni undirskrift. Frá vinstri: Margrét Vala Marteinsdóttir forstöðukona Reykjadals, Ásmund…
Kát að lokinni undirskrift. Frá vinstri: Margrét Vala Marteinsdóttir forstöðukona Reykjadals, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Vilmundur Gíslason framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og Hörður Sigurðsson formaður Styrktarfélags lamaðara og fatlaðra

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skrifaði á föstudaginn undir samstarfssamning við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra um sumarverkefni Reykjdals. Skrifað var undir samninginn í Vík í Mýrdal en þar taka fötluð börn og fjölskyldur þeirra þátt í Sumarfríi fjölskyldunnar, eitt af sumarverkefnum Reykjadals. Alls taka 500 einstaklingar þátt í einhverju af sumarverkefnum Reykjadals í sumar.

Annað árið í röð hlýtur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra styrk frá félagsmálaráðuneytinu til að skipuleggja afþreyingu fyrir fötluð börn og ungmenni sem viðbrögð við félagslegum áhrifum Covid-19. Sumarnámskeið Reykjadals, Ævintýrabúðir Reykjadals í Háholti í Skagafirði, Sumarfrí fyrir fullorðið fatlað fólk og Sumarfrí fjölskyldunnar í Vík og á Húsavík eru þau verkefni sem bætt var við. Að auki rekur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sumarbúðir í Reykjadal í Mosfellsdal.

Styrkurinn frá félagsmálaráðuneytinu er Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra gríðarlega mikilvægur því í sumar koma 500 einstaklingar í einhverskonar sumardvöl. Í fyrsta sinn síðan árið 2014 tókst að veita öllum þeim sem voru á biðlista undanfarin ár pláss. Nú eru aðeins fáeinir á biðlista sem sóttu um í fyrsta sinn í vor. Mikil aðsókn hefur verið í verkefnin sem nú eru öll orðin fullbókuð.

Sumarverkefni Reykjdals hafa ekki einungis orðið til þess að fleiri fá pláss heldur hafa skapast mörg störf um land allt. Um 100 manns starfa í sumarverkefnum Reykjdals í sumar.

Samstarfið við félagsmálaráðuneytið hefur verið farsælt. Starfsfólk Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra er virkilegla þakklátt fyrir það traust sem því hefur verið veitt.

Þetta höfðu félags- og barnamálaráðherra og Margrét Vala Marteinsdóttir forstöðukona Reykjadals að segja um samninginn í fréttatilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu:

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Ég er mjög ánægður með þetta verkefni enda hefur Covid-19 faraldurinn haft mikil áhrif á þessar fjölskyldur. Það er frábært að fá að vera hluti af þessu frábæra starfi sem Styrktarfélagið er að vinna og gerir fjölskyldum kleift að eiga saman skemmtilegan og dýrmætan tíma víða um landið. Vonandi verða veðurguðirnir með okkur í liði líka í sumar.“

Margrét Vala Marteinsson, forstöðukona Reykjadals: „Við erum gríðarlega þakklát fyrir að ráðherra og félagsmálaráðuneytið treysti okkur fyrir þessu stóra verkefni. Samstarfið við ráðuneytið hefur verið frábært og lausnamiðað. Við fengum mikið frelsi til þess að koma með hugmyndir og þessi styrkur gerir okkur kleift að gera sumarstarfið fyrir fötluð börn og ungmenni fjölbreytt og af metnaði en Covid-19 faraldurinn hefur reynt mjög mikið á þennan hóp.  Okkur hlakkar því mjög til sumarsins sem verður vonandi ógleymanlegt.“

Hópmynd í hesthúsi Black beach horse riding tours þaðan sem fjölskyldurnar fara í reiðtúra. Á myndinni eru frá vinstri: Hörður Sigurðsson formaður Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Þór G. Þórarinsson sérfræðingur hjá félagsmálaráðuneytinu, Einar Freyr Elínarson oddviti Mýrdalshrepps, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Vilmundur Gíslason framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Atli Lýðsson verkefnastjóri hjá Reykjadal, Dagmar Óladóttir starfsmaður Reykjadals, Sigríður Arna Lund starfsmaður Reykjadals, Guðjón Þorsteinn Guðmundsson eigandi Katlatrack og Margrét Vala Marteinsdóttir forstöðukona Reykjadals.