Karfan þín

Karfan er tóm.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið styrkir Reykjadalsvini

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Bergljót Borg, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, hafa undirritað styrksamkomulag til að efla vinasambönd fatlaðra ungmenna.

Markmið verkefnisins Reykjadalsvinir er að efla vinasambönd ungs fatlaðs fólks á aldrinum 18-35 ára og vinna gegn félagslegri einangrun, auka fjölbreytni í tækifærum fatlaðs fólks í félagsstarfi og stuðla að sjálfstæði í ákvarðanatöku og skipulagningu á eigin ferðalögum og afþreyingu. Verkefnið snýst um að tengja saman fullorðið fatlað fólk sem myndað hefur vinatengsl eftir samveru í sumar- og vetrardvöl í Reykjadal. Mörg þessara ungmenna hafa ekki haft tækifæri til að þróa og viðhalda vináttutengslum á fullorðinsaldri. Covid-19 faraldurinn jók verulega á þessa einangrun sem erfitt hefur verið að ná til baka. 

 

Vinahópar efldir

Hugmyndin að baki verkefninu er að skapa vettvang til að vinir geti varið tíma saman og náð að eflast sem vinahópar. Margt ungt fatlað fólk á sameiginlega reynslu og minningar úr Reykjadal sem það byggir sína vináttu á. Þar myndast vinahópar sem hittast ár eftir ár en eftir að fólk hættir að koma í Reykjadal verður erfiðara að halda tengslunum. Aðalmarkmið verkefnisins er því að skapa tækifæri til að viðhalda þessum tengslum. Annað markmið snýr að því að styðja ungt fatlað fólk til að finna sjálft leiðir til að viðhalda vináttu, til dæmis með því að finna sér tómstundir til að stunda saman og skipuleggja vinahittinga og stutt ferðalög með vinahópnum. Styrkurinn er að upphæð 28 milljónum króna og er liður í viðbrögðum stjórnvalda til að mæta félags- og heilsufarslegum afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins. 

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur síðastliðin ár styrkt starf Reykjadals fyrir fullorðið fólk. Verkefnið nú gefur þátttakendum færi á að vera í smærri hópum, hafa áhrif á dagskrána og styrkjast sem hópur.

 

Opnað verður fyrir umsóknir til þátttöku í febrúar næstkomandi.