Fundur með Gæða- og eftirlitsstofnun, verkferlar og fræðsluáætlun

Stjórnendur Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra funduðu fyrr í vikunni með Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) en stofnunin vinnur skýrslu um atvik það er varð hjá okkur síðasta sumar sem leiddi til endurskoðunar á verkferlunum okkar. Skýrsla stofnunarinnar verður gerð opinber í næsta mánuði. 
 
GEV tilkynntu okkur að stofnunin muni aðstoða Reykjadal með innleiðingu verklagsferils og fylgjast með hvernig til tekst. Stjórnendur SLF lýsa ánægju sinni með þessa ákvörðun, þar sem hún styrkir starfið og eykur ennfrekar öryggi gesta Reykjadals. 
 
Verklagsferillinn er tilbúinn og hefur verið í notkun í vetur af vaktstjórum Reykjadals. 
Hann verður birtur hér á heimasíðu SLF fljótlega en hann er unninn í samvinnu við Barnaheill.
Verkferillinn er settur upp á eftirfarandi hátt:
 
I. Forvarnaráætlun og fræðsla um fatlað fólk og kynferðislegt ofbeldi
II. Öruggari Rými
III. Siðareglur starfsfólks
IV. Fyrstu viðbrögð
V. Tilkynningarferill
VI. Mikilvæg símanúmer
VII. Eftirfylgni
 
Búið er að gera fræðsluáætlun fyrir næsta námskeið starfsfólks sem verður í maí og þar verður lögð mikil áhersla á fræðslu varðandi fatlað fólk og kynferðislegt ofbeldi.
 
Allir vaktstjórar bæði í Mosfellsdal og Skagafirði fara á námskeið Barnaheilla til að læra viðbrögð á vakt ef grunur vaknar um kynferðislegt ofbeldi.
 
Allt starfsfólk sumarbúðanna situr fyrirlestur um kynferðisofbeldi frá Barnaheillum þar sem lögð verður áhersla á fötluð börn og ungmenni með það að markmiði að fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi, þekkja einkenni þess og læra að bregðast við því.
 
Stöðvavinna verður á námskeiðinu þar sem starfsfólk í litlum hópum fræðist um verkferlana og tilkynningarskyldu. Við viljum hafa þá þekkingu sem þarf til að geta stemmt stigu við samskonar málum og erum að gera allt sem við getum gert til að tryggja það sem allra best.