Gáfu launin úr auglýsingaherferðinni til Reykjadals

Leikarahjónin Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors bættu ríflega milljón krónum við söfnunarsjóð Reykjadals vegna Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka. Þar með hafa safnast samtals 2.825.965 kr. fyrir Reykjadal á hlaupastyrkur.is
 
Unnur Ösp og Björn fóru skemmtiskokk en voru reyndar ansi langt frá brautinni sem aðrir fóru í Reykjavíkurmaraþoninu því þau voru stödd í Finnlandi. Þau hlupu því í fallegum skógi eins og meðfylgjandi myndir bera með sér en börn þeirra fjögur tóku þátt í skemmtiskokkinu í Reykjavík.
 

Fyrir hlaupið hafði fjölskyldan samtals safnað 39.000,- kr. Í síðustu viku millifærðu þau hjónin svo samtals 1.047.620,- kr. á söfnunarsíðu Reykjadals á hlaupastyrkur.is. Hluti af upphæðinni eru laun sem þau fengu fyrir að leika í auglýsingaherferð Íslandsbanka vegna maraþonsins en þau gáfu öll launin til Reykjadals. 

Starfsfólk Reykjadals þakkar þessum kraftmiklu hjónum fyrir þetta rausnarlega framlag. Stuðningur sem þessi er ómetanlegur.