Kærleikskúla ársins inniheldur augnabliks þögn

Kærleikskúlan ÞÖGN
Kærleikskúlan ÞÖGN

Þögn eftir Finnboga Pétursson er Kærleikskúla ársins 2020. Inni í kúlunni er segulbandsbútur sem geymir hljóðupptöku; augnabliks þögn. Kærleikskúla ársins var frumsýnd í Vikunni hjá Gísla Marteini í kvöld. Allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna

Augnabliks þögn á metra löngu segulbandi

Finnbogi Pétursson hefur lengi verið í fremstu röð íslenskra listamanna og er brautryðjandi á sínu sviði myndlistarinnar. Hann hefur haldið tugi sýninga um allan heim og var fulltrúi Íslands í Feneyjatvíæringnum árið 2001. Hljóð hefur verið meginefniviðurinn í myndlistinni frá upphafi. Skynjunin er Finnboga hugleikin, hann leikur sér með mörk sjónar og heyrnar og gjarnan svo að hið ósýnilega verður sýnilegt. Í innsetningum hans, oft alltumlykjandi, verða nærstaddir að þátttakendum sem hafa áhrif á verkið á sama tíma og þeir upplifa ljós- og hljóðbylgjur á nýjan hátt.

Kærleikskúlan ÞÖGN hefur að geyma hljóðupptöku á segulbandi. Svona lýsir Finnbogi verkinu:

Kærleikskúlan geymir augnabliks þögn – eina sekúndu á metra löngu segulbandi. Upptakan er gerð á Arnarstapa sumarið 1986 milli klukkan þrjú og fjögur að nóttu. Þarna hitti ég stundina þegar allt þagnar; fuglarnir, sjórinn, vindurinn, rollurnar – flugurnar. Stundina þegar náttúran endurstillir sig, verður hljóð og nýr dagur rennur upp.

-          Finnbogi Pétursson

 

 

 

 

Friðrik fékk fyrstu Kærleikskúluna

Kærleikskúlan ÞÖGN kemur í verslanir um land allt fimmtudaginn 3. desember. Söluaðilar kúlunnar taka enga þóknun fyrir söluna. Því rennur allur ágóði af sölu hennar óskiptur til sumarbúðanna í Reykjadal. Í Reykjadal er börnum og ungmennum sem þurfa sérstaka þjónustu vegna fötlunar gefið tækfæri til að skapa ógleymanlegar minningar.

Árlega velur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra handhafa Kærleikskúlunnar. Kúlan er veitt framúrskarandi fyrirmynd fyrir störf í þágu fatlaðra. Friðrik Sigurðsson þroskaþjálfi og fyrrverandi framkvæmdastjóri Þroskahjálpar er handhafi Kærleikskúlu ársins.

Kærleikskúlurnar átján

Þetta er í átjánda sinn sem Kærleikskúlan er gefin út. Listasafn Reykjavíkur hefur frá upphafi aðstoðað Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra við val á listamanni. Listamennirnir hafa allir gefið Styrktarfélaginu verkið. Listamenn sem hafa skapa Kærleikskúlur eru Erró, Ólafur Elíasson, Rúrí, Gabríela Friðriksdóttir, Eggert Pétursson, Gjörningaklúbburinn, Hreinn Friðfinnsson, Katrín Sigurðardóttir, Yoko Ono, Hrafnhildur Arnardóttir, Ragnar Kjartansson, Davíð Örn Halldórsson, Ragna Róbertsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Egill Sæbjörnsson, Elín Hansdóttir og Ólöf Nordal. Hægt er að nálgast eldri Kærleikskúlur í netversluninni: www.kaerleikskulan.is