Karl Guðmundsson er handhafi Kærleikskúlunnar 2021

Sirra og Kalli. 
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson/Akureyri.net
Sirra og Kalli.
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson/Akureyri.net

Karl Guðmundsson listmaður er handhafi Kærleikskúlunnar 2021. Árlega velur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra handhafa Kærleikskúlunnar. Kúlan er veitt framúrskarandi fyrirmynd fyrir störf í þágu fatlaðra. 

Sirra Sigrún Sigurðardóttir sem skapaði Kærleikskúlu ársins færði Karli fyrstu Kærleikskúluna í Ketilshúsinu á Akureyri í dag en þar opnaði Karl sýninguna Lífslínur á dögunum. Listferill Karls, sem er yfirleitt kallaður Kalli, spannar tvo áratugi en hann hóf listnám fimm ára gamall. Kalli hefur einstakt lag á því að koma listrænni tilfinningu sinni til skila í verkum sínum en hann er mál- og hreyfihamlaður. Kalli hefur haldið fjölda einkasýninga og samsýninga og vinnur gjarnan með listakonunni Rósu Kristínu Júlíusdóttur.

Árið 2015 var Kalli valinn Listamaður án landamæra. Við það tilefni sagði Rósa um Kalla: „Myndsköpun Kalla gefur honum rödd sem heyrist og gerir hann sýnilegan. Þessi rödd er þýðingarmikil og eflandi máttur í lífi hans.“ Stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra hefur valið Kalla sem handhafa Kærleikskúlunnar 2021. „Kalli er sannarlega verðug fyrirmynd. Hann lætur ekkert stöðva sig, hefur sigrast á hindrunum og er frábær listamaður,“ segir í áliti stjórnar.