Karfan þín

Karfan er tóm.

Kvennaverkfall 24. október 2025

Föstudaginn 24. október 2025 fer fram Kvennaverkfall um land allt. Í ár minnumst við að 50 ár eru liðin frá kvennafrídeginum árið 1975, þegar 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að undirstrika mikilvægi vinnuframlags kvenna og krefjast raunverulegs jafnréttis. Þrátt fyrir áfangasigra er baráttunni langt í frá lokið.
 
Konur og kvár eru hvött til að leggja niður bæði launuð og ólaunuð störf og sýna samstöðu með kröfum Kvennaárs. Vegna þessa má búsast við röskun á öllu samfélaginu þennan dag og á það einnig við hjá okkur á Æfingastöðinni.
 

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra styður jafnréttisbaráttu kvenna og kvár með hvatningu til þátttöku í kvennaverkfallinu. Það er ljóst að án þeirra verður ekki unnt að halda uppi starfsemi á Æfingastöðinni föstudaginn 24. október. 

Þar sem um er að ræða mikilvæga jafnréttisbaráttu vonum við að öll sýni þessu skilning.