Karfan er tóm.
Sjúkraþjálfarar Æfingastöðvarinnar sinna reglulega ungabörnum sem eru með ósamhverfu í hálshreyfingum og skekkju á höfuðkúpu. Þessi vandi er ekki óalgengur en ef gripið er inn í nógu snemma er í flestum tilfellum hægt að leiðrétta stöðuna með viðeigandi handtökum og örvun.
Á síðastliðnum árum hefur mikil aukning verið í tilvísunum til sjúkraþjálfara á Æfingastöðinni vegna ósamhverfu í hálshreyfingum og skekkju á höfuðkúpu hjá ungbörnum. Frá árinu 2018 til 2023 hefur t.a.m. tilvísunum fjölgað úr 123 í 270. Flestum er vísað frá heilsugæslu oft við 2-4 mánaða aldur. Það má með sanni segja að þau komi aldrei of snemma en meðferðin verður erfiðari og tímafrekari því eldri sem börnin eru. Meðferðarfjöldi er misjafn, sum koma í nokkur skipti, önnur mun oftar.
Höfuðkúpa ungbarna er mjúk og mótanleg. Liggi barn oftast með höfuð snúið til sömu hliðar verður höfuðkúpan flatari þeim megin og önnur bein höfuðkúpu skekkjast einnig. Skekkja á höfuðbeinum leiðir oft til truflunar á hálshreyfingum.
Aukningu í legutengdri höfuðskekkju síðastliðin má að hluta til skýra með aukinni árvekni heilbrigðisstarfsmanna en líka breyttum umhverfisþáttum t.d. vegna þess að nú er mælt með að ungbörn sofi á bakinu og ekki síst hefur notkun bílstóla og ýmis konar ungbarnastóla aukist verulega. Börn eru því með þrýsting á bakhlið höfuðs í lengri tíma en áður. Þá hefur almennt dregið úr maga- og hliðarlegu ungbarna í vöku.
Fyrsta vísbending um ósamhverfu í hálshreyfingum er yfirleitt sú að börnin snúa höfði meira eða einungis til annarrar hliðar. Ef börnin liggja ávallt og sofa með höfuðið snúið til sömu hliðar mótast hin mjúka höfuðkúpa þeirra fljótt af þrýstingi frá undirlaginu. Höfuðið verður flatara þeim megin og það verður æ þægilegra að liggja á flötu hliðinni. Hin hliðin verður kúptari og erfiðara verður að snúa yfir á þá hlið og halda jafnvægi þar. Ef skekkja í höfuðkúpu er mikil getur verið erfitt fyrir börn að horfa beint upp þegar þau liggja á bakinu. Þessi einhæfa lega getur valdið skerðingu í hálshreyfingum og vöðvastyttingum, sjónsvið barnsins minnkar og samspil augna og handa þeim megin sem barn horfir frá skerðist.
Mikilvægur þáttur meðferðar er fræðsla til foreldra svo sem útskýringar á orsökum, fræðsla um æskilegar hvíldar- og svefnstellingar fyrir barnið og leiðbeiningar um æfingar og meðhöndlun. Mikilvægt er að foreldrar séu strax frá fyrsta degi virkir þátttakendur í meðferðinni
Til að bregðast við þessari miklu aukningu hefur Æfingastöðin lagt ríka áherslu á fræðslu, meðal annars með útgáfu bæklings, samstarfi við aðra sjúkraþjálfara, Barnaspítalann og reglulegum fyrirlestrum fyrir ungbarnaeftirlit heilsugæslustöðvanna. Ungbarnaeftirlitið gegnir lykilhlutverki í að greina ósamhverfu snemma í ferlinu og vísa þeim sem þurfa nógu snemma til sjúkraþjálfara.
Æfingastöðin bauð t.a.m. upp á námskeið fyrir sjúkraþjálfara 2. maí sl. og komu þátttakendur víðsvegar af landinu. Uppselt var á námskeiðið og greinilegt að eftirspurn eftir fræðslu er mikil. Á námskeiðinu var farið bæði yfir fræðilega og verklega þætti, yfir orsakir ósamhverfu, klínískar leiðbeiningar, fyrirbyggjandi aðgerðir, skoðun, mat og meðferð.