Óslóartréð skreytt með Bjúgnakræki

Bjúgnakrækir eftir Sigga Odds og kvæði eftir Þórdísi Gísladóttur
Bjúgnakrækir eftir Sigga Odds og kvæði eftir Þórdísi Gísladóttur

Bjúgnakrækir, fimmtándi jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, prýðir Óslóartréð á Austurvelli. Tendrað verður á ljósum trésins í dag, fyrsta sunnudag í aðventu, í beinni útsendingu í kvöldfréttum RÚV. Jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra hefur prýtt Óslóartréð um árabil. Siggi Odds grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi hannaði Bjúgnakræki og Þórdís Gísladóttir rithöfundur samdi kvæði um kappann. Allur ágóði af sölu jólaóróanna rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna.

Bjúgnakrækir er næstsíðasti óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Markmiðið með gerð og sölu jólaóróanna er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Okkar færustu hönnuðir og skáld hafa lagt okkur lið og gefið vinnu sína við að skapa jólaóróana og semja kvæði. Kertasníkir var fyrstur í röðinni en hann kom út fyrir jólin 2006. Síðan hafa nýir sveinar verið skapaðir á hverju ári ásamt Grýlu, Leppalúða og Jólakettinum.

Allur ágóði af sölu jólaóróanna rennur til Æfingastöðvarinnar.

Sala Bjúgnakrækis fer fram í gjafavöruverslunum um land allt dagana 3. - 17. desember og í netverslun Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra http://www.jolaoroinn.is  

 

Bréf til Bjúgnakrækis

Kæri Bjúgnakrækir!
Ég vil vara þig við,
nútíminn gæti valdið vonbrigðum.

Þú finnur hvergi reykfyllt rjáfur
þar sem bjúgu
hanga í loftbitum.

Fyrr rekst þú á flatbökur,
grænkerakrásir og franskar kartöflur
en uppáhaldsmatinn þinn.

En treystu mér
og taktu nú eftir,
ég vil trúa þér fyrir dálitlu.

Þú munt kætast
ef þú laumast
inn í kæliklefa kjörbúðar.

Þar leynast bjúgu í lofttæmdum umbúðum
og handhægum bökkum sem hita má í örbylgjuofni.

Og bestu fréttirnar eru þær
að sumar búðir eru opnar allan sólarhringinn.

- Þórdís Gísladóttir

 

Sigurður Oddsson (Siggi Odds)

Siggi Odds er grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi, sem starfar bæði á Íslandi og í New York. Siggi lauk námi frá Listaháskóla Íslands árið 2008 og er mörkun og ímyndarsköpun hans sérsvið. Verk Sigga hafa hlotið verðskuldaða athygli og hefur hann rakað til sín verðlaunum og viðurkenningum, hérlendis sem erlendis. Hann hefur hlotið FÍT- verðlaunin, verðlaun Félags íslenskra teiknara, yfir tuttugu sinnum og þrisvar sinnum hefur hann hlotið Lúðurinn. Árið 2019 fékk hann alþjóðlegu auglýsingaverðlaunin The One Show fyrir endurmörkun Þjóðminjasafnsinsog var auk þess tilnefndur til The British Design & Art Direction Awards (D&AD).


Þórdís Gísladóttir

Þórdís Gísladóttir er afkastamikill rithöfundur og þýðandi, sem skrifar jöfnum höndum fyrir börn og fullorðna. Árið 2010 fékk hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir sína fyrstu ljóðabók, Leyndarmál annarra. Hún hlaut Fjöruverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir barnabókina Randalín og Mundi árið 2012 og hefur að auki hlotið þrjár tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þýðingar Þórdísar hafa einnig vakið athygli, en árið 2013 var hún tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir bókina Allt er ást eftir Kristian Lundberg. Fyrir ljóðabókina Óvissustig hlaut hún tilnefningu til Maístjörnunnar, verðlauna Rithöfundasambandsins og Landsbókasafns Íslands, sem besta ljóðabók ársins 2016.