Karfan þín

Karfan er tóm.

Skýrsla GEV og umbætur í Reykjadal

Miklar umbætur hafa átt sér stað í innra starfi Reykjadals í kjölfar skýrslu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sem kom út vegna rannsóknar á atviki sem átti sér stað í sumarbúðunum í ágúst 2022. Í skýrslunni voru settar fram tillögur að úrbótum í starfsemi Reykjadals með það að markmiði að bæta gæði starfseminnar og öryggi gesta í sumarbúðunum. 

Unnið hefur verið að úrbótum í samvinnu við Barnaheill og forvarnaráætlun og verklagsreglur mótaðar. Við viljum vera sérfræðingar í þessum málaflokki og leggjum mikla áherslu á að allt starfsfólk Reykjadals fái viðamikla fræðslu um kynferðisofbeldi og fatlað fólk. Einnig hefur bæst við ítarleg fræðsla um verkferla, fyrstu viðbrögð og tilkynningarskyldu. 

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála fylgdi málinu eftir með frumkvæðiseftirliti og kemur fram í niðurstöðu athugunar að „SLF og Reykjadalur hafi á fullnægjandi hátt unnið að þeim úrbótum sem settar voru fram af hálfu stofnunarinnar í skýrslunni, dags. 1. júní 2023.“

Er það niðurstaða GEV er að:

Starfsmannafjöldi sumarbúðanna taki í dag mið af umönnunarþyngd gesta. Þá fagnar GEV þeirri breytingu í starfseminni að nú sjái hver starfsmaður um færri börn en áður og telur að það minnki álag starfsfólks, bæti gæði þjónustunnar sem veitt er í sumarbúðunum og öryggi barnanna sem þar dvelja.

Skýrir verkferlar eru nú til staðar, m.a. um fyrstu viðbrögð, sem starfsfólki ber að beita þegar grunur leikur á að kynferðisofbeldi hafi átt sér stað. Þá er ljóst að stjórnendur og starfsfólk Reykjadals fá reglulega viðeigandi fræðslu og þjálfun í beitingu umræddra verkferla.  Þeir eru enn fremur aðgengilegir í handbók starfsfólks, sem allt starfsfólk fær eintak að, og á heimsíðu Reykjadals.

 

Eftirfylgni GEV með umbótum í starfsemi sumarbúðanna í Reykjadal er lokið líkt og kemur fram í frétt vegna málsins. Nánari upplýsingar á heimasíðu GEV. 

Nálgast má upplýsingar um verkferla og innra starf Reykjadals hér á heimasíðu sumarbúðanna. 

 

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra