Snjóstormur fyrstu helgina í fjölskyldufríi Reykjadals

Um helgina tóku fjórar fjölskyldu þátt í helgarfríi fjölskyldunnar í Vík í Mýrdal. Helgin er sú fyrsta af sex en verkefnið er styrkt af félagsmálaráðuneytinu sem viðbrögð við félagslegum áhrifum Covid-19.

„Það tókst alveg frábærlega vel til þessa fyrstu helgi, alveg frábær og samheldin hópur, urðum eiginlega bara ein 20 manna fjölskylda.  Fengum snjóstorm og allskonar en það lét það enginn stoppa sig í að njóta þess sem í boði var, gerði allt eiginlega bara meira skemmtilegt og spennandi,“ segir Atli Lýðsson sem skipuleggur og heldur utan um verkefnið.

Þetta er annað árið í röð sem fjölskyldum fatlaðra barna gefst kostur á að fara saman í skemmtilegt frí með öðrum fjölskyldum. Helgin snýst um að hafa gaman saman. Það er ekki sjálfgefið fyrir fjölskyldur fatlaðra barna að geta farið saman í frí. Starfsfólk Reykjadals er með í för og mikið er lagt upp úr því að allir fái eitthvað við sitt hæfi og að foreldrarnir geti spjallað saman.