Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 70 ára í dag

Fyrsta húsnæði Æfingastöðvarinnar við Sjafnargötu.
Fyrsta húsnæði Æfingastöðvarinnar við Sjafnargötu.

70 ár eru liðin frá stofnfundi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Fundurinn var vel sóttur enda samstaða um stofnun félagsins. Þörfin var augljós. Mænusótt hafði lagst á börn og þau þurftu á sérhæfðri meðferð að halda. Helsta baráttumál félagsins var að stofna miðstöð þjálfunar þar sem störfuðu sérfræðingar í hæfingu barna. Sú miðstöð varð að veruleika árið 1956 þegar fest voru kaup á húsi við Sjafnargötu. Húsið var áður íbúðarhús, gangar þröngir og aðstaðan ekki eins og best varð á kosið en leitað var allra leiða til að veita fjölbreytta þjónustu. Árið 1968 var starfsemin flutt á Háaleitisbraut 13, við það varð aðstaðan ein sú besta sem þekktist á Norðurlöndum. Í upphafi var skjólstæðingahópurinn börn sem fengið höfðu mænusótt. Síðar varð starfsemin aukin og komu börn með hreyfihömlun og ýmsar aðrar fatlanir í þjálfun.

Þjónusta við fötluð börn var lítil sem engin á þessum tíma. Árið 1963 keypti Styrktarfélagið land í Reykjadal í Mosfellssveit og reisti þar sumarbúðir. Þangað komu fötluð börn í dvöl í allt að þrjá mánuði. Þar störfuðu sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, sundkennari og íþróttakennari. Sumarbúðirnar í Reykjadal eru enn starfandi en með öðru sniði. Reykjadalur er ævintýraheimur gestanna. Þangað koma fötluð börn og ungmenni í sumardvöl í eina til tvær vikur til að skemmta sér með vinum sínum og fá frí.

Starfsemi sumarbúðanna í Reykjadal hefur vaxið. Síðastliðin tvo sumur hefur meira verið í boði en sumarbúðir Reykjadals í Mosfellsdal. Mikil eftirspurn hafði verið í sumarbúðirnar um árabil og dæmi um að börn hafi þurft að bíða hátt í þrjú ár eftir að komast að. Á síðasta ári var í fyrsta sinn hægt að bjóða öllum sumardvöl sem þess óskuðu en það var vegna stuðnings frá félags- og barnamálaráðuneytinu til að mæta félagslegum áhrifum af Covid. Alls tóku um 500 einstaklingar þátt í einhverju af sumarverkefnum Reykjadals.

Í dag sækja um 1.500 einstaklingar þjónustu hjá Æfingastöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Langflestir skjólstæðingar eru börn. Á Æfingastöðinni vinna sjúkra- og iðjuþjálfar markvisst að því að auka þátttöku og lífsgæði barnanna með því að hlúa að fjölskyldum þeirra og nærumhverfi. Þarfir og gildi fjölskyldunnar eru hafðar að leiðarljósi þar sem áhersla er á samvinnu foreldra og þjónustuaðila og fjölskyldan er upplýst og virkur þátttakandi í ferlinu. Í haust verður tekið enn stærra skref í átt að því að tryggja að gildi og markmið fjölskyldunnar og ekki síst barnanna verði leiðarstefið í þjónustunni. Þá verður innleidd hugmyndafræði sem styrkir enn frekar starf með börnum og horfir til þess hvað er þeim mikilvægt í dag og einnig þegar litið er til framtíðar. Þannig er horft til þátttöku þeirra í leik, félagslegum samskiptum, í íþróttum og tómstundum.

Í tilefni af 70 ára afmæli Styrktarfélags lamaðra og fatlaða hefur verið lagt til að stofna notendaráð. Notendaráðið verður tvískipt, annars vegar börn 12-15 ára og hins vegar 15 ára og eldri. Það er mikilvægt og löngu tímabært skref sem mörg önnur félög hafa tekið. Raddir barna og ungmenna eru mikilvægar. Þær þurfa að heyrast og fá meira vægi. Sérstaklega raddir fatlaðra barna og ungmenna.