Sumarhappdrættið er komið í sölu

Sumarhappdrætti Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra er komið í sölu, hægt er að finna happdrættismiðann inn á heimabankanum eða kaupa hann inn á netverslun okkar hér.  
Allur ágóði af sumarhappdrættinu rennur til sumarbúðanna í Reykjadal.

Í ár var ákveðið að vekja athygli á því að það eru sextíu ár liðin frá því að Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hóf að bjóða upp á sumardvöl. 

Þá var starfsemin í Reykjaskóla í Hrútafirði og í Varmalandi í Borgarfirði.

Þetta er þó ekki eiginlegt afmælisár Reykjadals því við höfum miðað við að halda upp á þann áfanga út frá því ári þegar félagið festi kaup á núverandi húsnæði okkar í Mosfellsdal, sem var árið 1963. Mikil breyting hefur orðið á sumarstarfseminni frá því að Styrktarfélagið hóf að bjóða upp á slíka, en á upphafsárunum komu til dæmis bæði fötluð og ófötluð börn sem dvöldu þar sumarlangt. Nú koma um 200 fötluð börn og ungmenni á hverju einasta sumri og dvelja flest þeirra í tvær vikur í senn og hafa síðan að auki kost á því að koma tvisvar sinnum um helgar yfir vetrartímann.

Meginmarkmið Reykjadals er að bjóða þeim sem hafa ekki kost á að sækja aðrar sumarbúðir upp á ævintýralega og eftirminnilega dvöl. Lagt er upp úr því að allir fái að njóta sín á sínum eigin forsendum og skemmti sér í góðra vina hópi.


Með þeim miðum sem voru sendir í pósti fylgdi einnig aukamiði sem dreypir örlítið á sögu Reykjadals. 

Reykjadalur árið 1963

Mikil áhersla var lögð á sundiðkun á fyrstu árunum sem boðið var upp á sumardvöl. Enn í dag er sundlaugin mikið notuð í Reykjadal en hún opin þrisvar sinnum yfir daginn. Í dag  er þó meira lagt upp úr skemmtun og útiveru heldur en þjálfun sem slíkri. Nú stendur til að byggja nýjan heitan pott fyrir sumarið 2019 sem verður utandyra við hlið sundlaugarinnar. Auk þess er væntanlegt nýtt útihljóðkerfi fyrir sundlaugarsvæði Reykjadals sem mun nýtast vel í sundlaugarpartýunum sívinsælu.

Uppbygging og þróun Reykjadals og starfsemi þar innan byggist að mjög miklu leyti á fjáröflunum, styrkjum og gjöfum og skipar happdrættið þar stóran sess og hefur gert í tugi ára. Við erum ávallt að leitast við að bæta þjónustu okkar í takt við samfélagið og tökum fagnandi við ábendingum og leiðum til að gera enn betur.